Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúðarhús og hverfi í Grindavík í hættu vegna mögulegra flóða
Föstudagur 9. ágúst 2024 kl. 10:08

Íbúðarhús og hverfi í Grindavík í hættu vegna mögulegra flóða

Hækka varnargarða og land innan hafnar um einn til tvo metra

Landsig hefur orðið við höfnina í Grindavík og eru hæðarbreytingar um hálfur til einn metri. Til að flóðahætta verði ekki meiri en fyrir jarðhræringar þarf að hækka sjóvarnir um tvöfalda þá hæðarbreytingu. Aðgerðin er nauðsynleg til að verja fiskvinnslur, fiskmarkaðinn og önnur hús við Miðgarð. Þetta kemur fram í aðgerðaáætlun vegna viðgerða á innviðum innan þéttbýlis í Grindavík sem framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ, Grindavíkurnefndin, hefur lagt fram.

Íbúðarhús, sem nú eru að nokkrum hluta í eigu Fasteignafélagsins Þórkötlu ehf. og hverfi gætu verið í hættu ef flóð verður mikið, s.s. við Verbraut og Lautina. Vegagerðin hefur metið nauðsynlegar framkvæmdir og greint kostnað við þær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flóðvörnin vestan við nýja vestari brimgarðinn er um 385 metrar að lengd og um einn til tveir metrar að hæð. Miðað er við að hækka þurfi grjótvörnina á þeim kafla um einn til tvo metra.

Innan hafnar þarf að hækka landið um einn til tvo metra og ganga frá grjótfláum milli Kvíabryggju og Norðurgarðs annars vegar og Norðurgarðs og Miðgarðs hins vegar.

Tímarammi er einn mánuður og kostnaður 40 milljónir króna.