Íbúðalánasjóður selur fleiri eignir á Suðurnesjum til leigufyrirtækja
- ÍLS á 498 eignir á Suðurnesjum
Íbúðalánasjóður tók á dögunum 44 íbúðir á Suðurnesjum úr sölu á fasteignasölum og er ætlunin að selja þær saman til íbúðaleigufyrirtækja. Alls tók sjóðurinn 101 íbúð víða um land úr sölu. Meirihluti eignanna á Suðurnesjum er í Reykjanesbæ, eða 38. Tvær eignanna eru í Garði, tvær í Grindavík, ein í Vogum og ein í Sandgerði. Að sögn Gunnhildar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Íbúðalánasjóðs, eru þetta íbúðir sem taldar eru hentugar til leigurekstrar. „Íbúðalánasjóði er ekki ætlað að eiga íbúðir til lengri tíma. Nú er tækifæri til að selja og vill sjóðurinn selja þennan hluta í söfnum.“
Fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum hefur tekið vel við sér að undanförnu, að sögn Gunnhildar og hefur sjóðurinn selt mikið af eignum sínum á svæðinu. „Salan verður því væntanlega áfram góð í stökum eignum. Við finnum einnig fyrir því að leigufyrirtæki horfa til framtíðar með leigustarfsemi á Suðurnesjum,“ segir hún.
Í dag á Íbúðalánasjóður 498 eignir á Suðurnesjum en þegar mest lét voru þær um 900. Af þessum 498 eignum hafa 300 verið skráðar á faseignasölum til sölu og 194 eru í útleigu. Leigufélagið Klettur ehf., sem er sjálfstætt félag í eigu Íbúðalánasjóðs, á 75 eignir til viðbótar á Suðurnesjum og eru þær í útleigu.
Síðustu 12 mánuði hefur sala eigna sjóðsins á Suðurnesjum gengið sérstaklega vel. Frá árinu 2008 og til 1. nóvember síðastliðinn hefur sjóðurinn selt 738 eignir og hefur mestur hluti þeirra verið seldur á árunum 2014 og 2015, eða 579 eignir. Af þessum 579 eignum voru 236 seldar í söfnum.