Íbúð stórskemmd eftir eldsvoða í morgun
Eldur kom upp á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Heiðarholt 26 í Keflavík í morgun. Tilkynnt var um eldinn til lögreglunnar í Keflavík laust fyrir klukkan sjö. Tveir íbúar íbúðarinnar flúðu út á svalir og var bjargað þaðan af reykkafara slökkviliðsins. Þeir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til nánari skoðunar. Eldurinn kom upp í svefnherbergi og myndaðist mikill reykur og hiti. Slökkvistarf tók skamma stund en íbúðin er mikið skemmd og einnig komst reykur í sameign.