Íbúarnir hafa aldrei verið spurðir
Hafinn er undirskriftasöfnun þar sem skorað er á sveitarstjórnarmenn á Reykjanesi að leita allra leiða til að tryggja að orkuöflun og sala á vatni og rafmagni verði ekki færð í meirihlutaeign einkaaðila og að tryggt verði að sala og dreifing á rafmagni verði til frambúðar verkefni Hitaveitu Suðurnesja. Jafnframt að HS verði í meirihlutaeign sveitarfélaganna.
Hannes Friðriksson, íbúi í Reykjanesbæ, stendur að undirskrifasöfnuninni sem fer fram á netinu á vefslóðinni www.askorun2007.is auk þess sem hefðbundnir listar munu ganga á milli fólks.
Hannes segir að í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga hafi ekki verið í umræðunni að sveitarfélög eða ríki hefðu uppi nein áform um sölu hlutabréfa í HS og þaðan af síður að til greina kæmi að einkavæða fyrirtækið. Í kjölfar á sölu ríkisins hafi farið í gang atburðarás, sem leitt hafi til þeirrar stöðu sem íbúar standi frammi fyrir í dag og við því þurfi að bregðast. Hannes vill meina að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafi misst stjórn á atburðarásinni við sameiningu GGE og REI. Í öllu ferlinu hafi aldrei verið staldrað við og spurt hvað íbúunum væri fyrir bestu. Þeir hafi heldur aldrei verið spurðir og því sé mikilvægt fyrir íbúalýðræðið að þeir segi skoðun sína. Því hafi hann farið af stað með þessa undirskriftasöfnun.
Til að kynna hana hélt hann blaðamannafund heima hjá sér í dag, til að undirstrika að hann stendur að henni sem íbúi. Undirskrifasöfnuninni sé ætlað að standa utan við pólítskt dægurþras og sjónarmið íbúanna þurfi að koma fram burtséð frá stjórnmálaskoðunum þeirra.
Hannes segir að ef sameining REI og GGE nái fram að ganga gæti komið upp sú staða að orkulindir og orkuver HS á Reykjanesskaga verði komnar í meirihlutaeign einkaaðila ef ekkert verði að gert. Arsemi þess fjár sem þeir hafa lagt í þessa fjáfestingu verði látin ráða för nema íbúar svæðisins velji að viðhalda óbreyttu ástandi frá því sem nú er. Til þess að svo megi verða verði að senda kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum skýr skilaboð um hver vilji íbúanna sé í þessu máli. Í því felist að þeir verði að staldra við og spyrja sig hvort þeir séu á réttri leið. Það geti ekki verið að menn ætli að sætta sig við eina niðurstöðu í málinu án þess að skoða fleiri kosti í stöðunni.
Mynd/elg: Hannes Friðriksson, íbúi í Reykjanesbæ, hélt blaðamannafund í bílskúrnum heima sér í dag.