Íbúar Voga hvattir til að fagna ástinni í september
Septembermánuður er Ástarmánuður Þróttar í Vogum og íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að fagna ástinni með þá von að hún beri ávöxt á vormánuðum.
Þrátt fyrir öra fjölgun íbúa í Sveitarfélaginu Vogum á undanförnum árum hefur börnum þess fækkað og bitnar það á íþróttastarfi í sveitarfélaginu. Til að sporna við þessari þróun hefur Ungmennafélagið Þróttur útnefnt september Ástarmánuð Þróttar og hvetur íbúa til að leggja sérstaka áherslu á að njóta ásta(rinnar) í þeim mánuði. Þróttarar hafa fengið hjálpartækjaverslunina Blush með sér í lið en verslunin veitir íbúum Voga 10% afslátt af vörum sínum í Ástarmánuðinum – eins og gefur að skilja gildir afslátturinn ekki af getnaðarvörnum.
Í tilkynningu sem Ungmennafélagið Þróttur sendi frá sér í dag segir að síðustu árin hafi nemendum fækkað í grunnskóla í Vogum og iðkendum hefur sömuleiðis fækkað í barnastarfinu. Árin 2015 til 2017 var félagið með yfir tíu iðkendur í öllum sjö manna flokkum í knattspyrnu, einnig var góð þátttaka í öðrum greinum.
„Við finnum heldur betur fyrir þessari fækkun þrátt fyrir meiriháttar gott starf og hugsað er vel um okkar iðkendur. Það voru vel yfir 200 nemendur í grunnskólanum en í dag eru ekki nema 160 nemendur. Þrátt fyrir þessa fækkun hefur íbúum fjölgað á sama tíma. Félagið hefur ekki látið slá sig út af laginu þrátt fyrir þetta og heldur úti metnaðarfullu starfi sem gengur vel. Markmið okkar með þessu átaki er að fjölga iðkendum og hvetja íbúa til að eiga notalega stund saman í september. Við munum svo vonandi taka á móti fleiri iðkendum 2025,“ segir m.a. í tilkynningu Þróttar.
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, sagði í viðtali við Víkurfréttir að félagið haldi Ástarmánuð Þróttar í Vogum í samstarfi við Blush. „Ég ræddi þessa hugmynd okkar við forsvarsmenn unaðsvöruverslunarinnar Blush og þeir tóku okkur opnum örmum og voru tilbúnir að stökkva á vagninn, þeim fannst þetta frábær hugmynd og voru tilbúin að leggja okkur lið en verslunin leggur það ekki í vana sinn að taka þátt í svona uppákomum. Allir íbúar í Vogum fá því 10% afslátt af unaðsvörum verslunarinnar í september með kóðanum Vogar10 en eðlilega gildir afslátturinn ekki af getnaðarvörnum. Öll börn sem fæðast í maí og júní fá svo frítt í íþróttaskólabarna 2025 til 2027.
Okkur, sem störfum fyrir félagið brennum fyrir iðkendur og stöndum fyrir öflugu íþróttta-, forvarna- og uppbyggingastarfi, þykir erfitt að sjá á eftir krökkunum okkar fara annað þar sem ekki næst í lið eða það þurfi að sameina flokka eða greinar í Vogum. Sérstaklega þegar litið er til þess að samfélagið í Vogum er svo öflugt eins og sýndi sig í sumar þegar öflugur foreldrahópur hélt utan um 40 manna hóp sem fór til Salou á vegum félagins,“ segir Marteinn, aðalhvatamaður unaðslegra ástarfunda í Ástarmánuði Þróttar í Vogum.