Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Íbúar Reykjanesbæjar mun ánægðari með sorphirðu nú
Þriðjudagur 19. febrúar 2019 kl. 09:07

Íbúar Reykjanesbæjar mun ánægðari með sorphirðu nú

Íbúum í Reykjanesbæ finnst bæjarfélagið standa sig betur í flokkun á sorpi meðal íbúa en meðaltal íbúa í öðrum sveitarfélögum. Þetta kemur fram í þjónustukönnun Gallup fyrir Reykjanesbæ, þegar spurt er um umhverfismál. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
 
Íbúar eru einnig mun ánægðari með þjónustu í tengslum við sorphirðu í sveitarfélaginu nú en í sambærilegri könnun árið 2017. Þess má geta að flokkun endurvinnanlegs efnis hefur farið vel af stað hjá Kölku. Athyglisvert er að sjá að þátttakendum í könnuninni finnst þeir hugsa minna um það sem þeir geta gert til að draga úr áhrifum sem þeir hafa á loftslagið og umhverfið en þátttakendur í öðrum sveitarfélögum í heild. Alls 278 svöruðu könnun Gallups.
 
Alls 72% aðspurðra finnst Reykjanesbær standa sig mjög eða frekar vel í að stuðla að flokkun á sorpi meðal íbúa. Heildartalan er 63% í öðrum sveitarfélögunum sem könnun Gallup nær til. Hvað varðar flokkun á sorpi meðal fyrirtækja eru íbúar í Reykjanesbæ á pari við meðaltal sveitarfélaganna í heild. Um 50% segjast sveitarfélagið standa sig mjög eða frekar vel þar. Einnig finnst íbúum Reykjanesbær standa sig betur í að minnka plastrusl á opnum svæðum í sveitarfélaginu en meðaltal íbúa í öðrum sveitarfélögum sem könnunin nær til.
 
Nýverið upplýsti Kalka íbúa á þjónustusvæði um stöðu endurvinnslu, sem hófst í september 2018. Þar kemur fram að flokkun á þjónustusvæði væri orðin nokkuð góð og um 24% af heildarinnvigtuðu magni úrgangs. Flokkun hafi því farið vel af stað og bjartsýni ríki. Reynslan sýni að magn endurvinnanlegs efnis hefur farið yfir 30% í öðrum sveitarfélögum með sambærilegt flokkunarkerfi.
 
Líkt og með flokkunina, er alltaf svigrúm til að gera betur. Í könnun á þjónustu Reykjanesbæjar í umhverfismálum má sjá að Reykjanesbær getur gert betur í að stuðla að umhverfisvænni samgöngum og draga úr loftmengun, að mati bæjarbúa.  Í svörum þátttakenda kemur einnig fram að þeir gætu hugað betur að því að draga úr þeim áhrifum sem þeir hafa á loftslagið og umhverfið. Alls 60% eru mjög eða frekar sammála spurðir „Ég hugsa mikið um hvað ég get gert til að draga úr þeim áhrifum sem ég hef á loftslagið/umhverfið.“ Í sveitarfélögum í heild er prósentutalan 74.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024