Íbúar Reykjanesbæjar í skýjunum með Sigríði og Reykjanesapótek

-Neyðarsími apóteksins er alltaf opinn

„Guttinn minn vaknaði með 40,4 stiga hita og ekkert apótek var opið. Ég endaði með hann á HSS og þegar við komum heim fattaði ég að stílarnir væru búnir og sá fram á að ég þyrfti að bruna til Reykjavíkur til að komast í apótek. Ég ákvað að hringja í Reykjanesapótek kl. 21:30 og svarið sem ég fékk var: „Ekkert mál, ég verð komin eftir korter. Við verðum að redda barninu.“ Eigandi Reykjanesapótek er æði og þjónustan er frábær. Takk fyrir mig Reykjanesapótek.“

Þetta er frásögn föður frá Reykjanesbæ sem hann deildi inn á Facebook-síðu íbúa bæjarfélagsins. Sigríður Pálína Arnardóttir hefur nú rekið Reykjanesapótek síðan 31. mars síðastliðinn.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt. Ég er svakalega glöð því mér þykir svo vænt um það hvað móttökurnar eru góðar. Þetta er bara meiriháttar,“ segir Sigríður Pálína í samtali við Víkurfréttir. Hún segir þó ekki mikið um það að fólk hringi eftir auglýsta opnunartíma en það sé þó sjálfsagt ef fólk þurfi á aðstoð að halda. „Það er allt í lagi að hringja hvenær sem er ef það vantar. Það er minnsta mál.“

Opnunartími apóteksins er frá kl. 9 til 20 alla virka daga og frá 12 til 19 um helgar. „Opnunartíminn er í samræmi við læknavaktina, þess vegna er opið svona lengi. Ef það er svo mikið að gera á læknavaktinni þá hinkra ég svo fólk þurfi ekki að fara til Reykjavíkur.“

Reykjanesapótek er eitt af fimm apótekum í Reykjanesbæ, en það er staðsett að Hólagötu 15 í Njarðvík. Neyðarsíminn eftir auglýsta opnunartíma apóteksins er 821-1128.