Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúar kvarta yfir hópflugi fisvéla
Þriðjudagur 11. júní 2002 kl. 00:30

Íbúar kvarta yfir hópflugi fisvéla

Nokkrar kvartanir bárust til lögreglunnar í Keflavík á tólfta timanum í kvöld vegna lágflugs fisflugvéla yfir byggðinni við Heiðarholt í Keflavík. Lögreglumaður staðfesti í samtali við Víkurfréttir að 2-3 kvartanir hafi verið hringdar inn. Hins vegar voru mun fleiri sem nutu þess að horfa á flugið úr bílum sínum við Hringbraut í Gróf og frá Heiðarbergi.Veðurfar í dag og kvöld hefur verið kjörið til fisflugs og það nýttu félagar í fisfélaginu Sléttunni sér og flugu fjórar vélar hópflug yfir flugbrautinni í Gróf. Vélarnar fóru hver um sig tvo til þrjá hringi og meðal annars var flogið yfir fjölbýlishúsin í Heiðarholti. Það þótti einhverjum íbúum vera glæfralegt svona seint að kvöldi og hringdu á lögreglu.
Talsmaður Fis-flugmanna, sagðist í samtali við Víkurfréttir á miðnætti vilja biðjast velvirðingar á því ef flugið hafi truflað fólk á einhvern hátt. Það hafi ekki verið rétt að fljúga lágt yfir blokkirnar í Heiðarholti og tryggt verði að það gerist ekki aftur. Íbúar Reykjanesbæjar munu hins vegar áfram fá að njóta þess að horfa á flugvélarnar á meðan svona vel viðrar til flugs.

Meðfylgjandi mynd var tekin á „flugsýningunni“ í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024