Íbúar í Höfnum ferðast frítt með leigubíl
Um áramótin voru gerðar breytingar á almenningssamgöngum í Reykjanesbæ. Strætisvagnakerfið í bæjarfélaginu hefur verið eflt til muna frá og með áramótum. Ekið er eftir fjórum leiðum í Reykjanesbæ sem allar hafa sömu miðju. Undirbúningur fyrir nýja miðlæga strætisvagnakerfið í Reykjanesbæ er hafinn en núverandi stöð við Reykjaneshöll var ávallt hugsuð til bráðabirgða.
Það sem helst vekur athygli við nýja strætisvagnakerfið er að reglulegum ferðum til Hafna hefur verið hætt. Guðlaugur Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir að ákveðið hafi verið að leita í kerfi sem þekkist víða erlendis í smærri byggðarkjörnum.
„Nýja kerfið er framkvæmt með þeim hætti að íbúum Hafna stendur til boða almenningssamgöngur til og frá Höfnum, á áætlun kerfisins. Hringja þarf hins vegar með 60 mínútna fyrirvara og panta bíl,“ segir Guðlaugur. Reykjanesbær samdi við leigubílastöðina Aðalstöðina í Reykjanesbæ til að sinna þessari þjónustu. Íbúar í Höfnum, sem þurfa að sinna erindum sínum í Reykjanesbæ, ferðast því án endurgjalds með leigubíl. „Hér áður fyrr óku jafnvel tómir bílar fram og til baka en nú er einungis sendur bíll eftir þörfum. Þessi þjónusta hefur reynst mjög vel og það er mikil ánægja með þetta fyrirkomulag.“
Líkt og áður þá er frítt í alla strætisvagna í Reykjanesbæ. Nauðsyn er á öflugu stætisvagnakerfi enda er bæjarfélagið víðfemt. „Almennt hefur tekist vel með nýja kerfið og við erum að skoða það að bæta það enn frekar. Við höfum fengið ábendingar um að jafnvel þurfi að láta bíl aka frá kl. 07:00 svo hægt sé fyrir alla íbúa Reykjanesbæjar að sækja vinnu með strætó. Við munum skoða það mál frekar,“ segir Guðlaugur.