Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 1. desember 2001 kl. 12:32

Íbúar í Garði reiðir vegna ofbeldisverks

Íbúar í Garði eru reiðir vegna ofbeldisverks sem framið var í byggðarlaginu á fimmtudagskvöld. Þar gekk ungur maður í skrokk á dreng með alvarlegum afleiðingum. Atvikið átti sér stað kl. 22:30 í kjölfar þess að snjóbolta var kastað í bifreið mannsins.Atvikið sem átti sér stað í Garðinum á fimmtudagskvöld kl. 22:30 var kært til lögreglu. Ekki hefur tekist að fá upplýsingar um atburðinn hjá lögreglunni í Keflavík. Skýrsla um atburðinn er ekki tilbúin og varðstjóri sem Víkurfréttir ræddu við treysti sér ekki til að gefa nákvæmar upplýsingar um atvikið.

Aðili í Garði, sem ekki vill láta nafns síns getið, sagði í samtali við netútgáfu Víkurfrétta að hópur ungmenna hafi verið samankomin í byggðarlaginu og hafi snjóbolta verið kastað úr hópnum í bifreið unga mannsins þegar hún ók framhjá. Hafi maðurinn þegar stöðvað bílinn og síðan ekið á talsverðri ferð inni í hóp ungmennana. Við það hafi einn fallið í götuna. Ökumaðurinn mun hafa farið út úr bílnum og sparkað í þann sem lá í götunni. Sá sem lá í götunni mun, samkvæmt heimildum blaðsins, hafa meiðst alvarlega og var fluttur með sjúkrabíl á forgangi til Reykjavíkur. Áverkar munu vera innvortis.

Íbúi í Garði sem ræddi við blaðamann sagði að í undirbúningi væri undirskriftalisti þar sem meintur ofbeldismaður er hvattur til að yfirgefa byggðarlagið. „Það er erfitt að líða framkomu sem þessa. Auðvitað eiga börnin ekki að kasta snjóboltum í bíla eða fólk en svona gróft ofbeldi, bæði að aka inn í hóp ungmennana á bifreið og ganga síðan í skrokk á liggjandi aðila og valda honum alvarlegum meiðslum er framkoma sem ekki er hægt að líða,“ sagði viðmælandi netútgáfunnar.



Það skal tekið fram að ekki hefur fengist lýsing lögreglu á atburðum og þessi frásögn því eingöngu byggð á upplýsingum íbúa í Garði sem hafði samband við Víkurfréttir vegna atviksins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024