Íbúar fái að kjósa um málefni bæjarfélagsins
Ný tillaga sem lögð var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær gengur út á að efna skuli til íbúakosninga um afmörkuð málefni ef eigi færri en 30% atkvæðisbærra bæjarbúa óska eftir því með undirskrift áskorunnar. Forvarsmönnun undirskriftarsöfnunar og öðrum hagsmunaaðilum skal standa til boða að kynna sjónarmið sín á vef Reykjanesbæjar.
Flutningsmaður tillögunnar er Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. Í henni er fjallað um reglur um íbúakosningar í Reykjanesbæ sem efnt skuli til utan almennra sveitarstjórnarkosninga. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla geti farið fram um öll mál á verksviði bæjarstjórnar nema þau sem lög ákveða sérstaklega að bæjarstjórn skuli fara með, t.d. gerð fjárhagsáætlana og breytingar á stjórnsýslu bæjarfélagsins. Ekki verði hægt að efna til atkvæðagreiðslu um gjaldskrár, álagninu opinberra gjalda né annað af því tagi, segir í tillögunni. Lagt er til að niðurstöður atkvæðagreiðslu teljist bindandi ef tveir þriðju atkvæðisbærra íbúa taki þátt í kosningunni og meira en helmingur greiddra atkvæða falli með ákveðnu sjónarmiði.
Samþykkt var að vísa tillögunni til bæjarráðs til frekari umfjöllunar.