Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Íbúar eiga annað skilið en „2007“
Mánudagur 6. júlí 2009 kl. 11:19

Íbúar eiga annað skilið en „2007“


Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar, þær Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og Petrína Baldursdóttir, sendu í morgun frá sér yfirlýsingu vegna viðskipta Reykjanesbæjar og Geysis Green Energy. Þar eru sett spurningamerki við aðkomu erlends fyrirtækis að viðskiptunum með auðlindina og allan flýtinn að ná samningum í gegn. Spurt er um fjárhagslega stöðu GGE og eignarhald. Þá lýsa þær furðu sinni á því hvernig Reykjanesbær hyggst beita sér fyrir því að afnema forkaupsrétt annarra hluthafa í HS Orku eins og kveðið er á um í samningum GGE og Reykjanesbæjar. Íbúar einstakra sveitarfélaga og landsmenn allir eigi annað skilið en áfram sé haldið á sömu braut og "2007", eins og það er orðað.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Yfirlýsing frá bæjarstjóra og formanni bæjarráðs vegna sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum til GGE

Undirritaðar vilja koma eftirfarandi á framfæri:
Í þeim gjörningi sem nú stendur yfir vegna sölu á hlut Reykjanesbæjar til GGE á HS Orku hf teljum við að það hljóti að vera óheppilegt að eignarhald á félaginu sé óstyrkt og jafnvel að það líti út fyrir að félagið sé fjárvana. Einnig er margt um aðkomu erlends félags sem vekur upp spurningar um félagið og aðkomu þess, þó það geti jafnvel talist jákvætt að erlendir aðilar geti hugsað sér aðkomu að endurreisninni hérlendis. En hver er fjárhagsleg geta félagsins?

Samkvæmt þeim litlu upplýsingum sem fyrir liggja nú er Magma Energy félag sem stofnað var árið 2008 og hefur ekki reynslu af stýringu og nýtingu auðlinda né rekstri jarðorkuvera. Fjárhagslegur styrkur félagsins hefur ekki verið staðfestur svo vitað sé. Félagið hefur verið að sækja sér fé á kanadískum hlutabréfamarkaði. Telja undirritaðar eðlilegt að eigendur orkuvera standist ákveðnar kröfur varðandi fjárhagslega stöðu, hafi reynslu af rekstri orkuvera og umgengni við jarðhitaauðlindir. Hefur t.d. félagið Magma Energy samþykkt í stefnu sinni eitthvað um samfélagslega ábyrgð þannig að rekstrarlegar ákvarðanir félagsins séu ekki eingöngu teknar út frá fjárhagslegri afkomu heldur einnig getu auðlindar og þörf samfélagsins til langs tíma litið?

Margar spurningar hljóta almennt að vakna upp varðandi þessar skjótu ákvarðanatökur meirihluta stjórnar HS Orku hf. og allan flýtinn að ná samningnum í gegn. Er ekki þörf á að fá svör við þeim athugasemdum sem Orkustofnun gerir, s.s. er varðar orkunýtingu í Svartsengi?

Hver er fjárhagsleg staða Geysis Green Energy? Er ekki augljóst að mikilvægt er að upplýsa hvert sé núverandi eignarhald GGE og hinna ýmsu dóttur- og hlutdeildafélaga? Er félagið fjársterkt um þessar mundir? Eru tengd félög fjársterk? GGE ætlar sér að vera í samstarfi við erlendan aðila og gangast í milljarða fjárskuldbindingar.

Einnig er hægt að furða sig á því ef íslenska ríkið verður helsti gerandi þess að koma auðlindum landsins í hendur erlendra aðila í gegnum Íslandsbanka og Geysir Green Energy. Jafnvel til aðila sem enga reynslu hafa af rekstri jarðvarmavirkjana svo vitað sé.

Þá vekur það líka undrun að lesa það í fjölmiðlum að Reykjanesbær ætli að beita sér fyrir því að afnema forkaupsrétt annarra hluthafa í HS Orku hf.
Reykjanesbær er þannig að beita sér gagnvart öðrum nágrannasveitarfélögum þ.á.m Grindavíkurbæ. Það verður að teljast undarlegt að Reykjanesbær láti setja það í samninga að bærinn muni gera aðför að eignaréttindum nágrannabæjar og ætli jafnframt að skuldbinda sig til að hlutast til um deili- og aðalskipulag á umræddu landssvæði þar sem samstarf er milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum um margvíslega hluti.

Hann hlýtur að teljast undarlegur, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, allur þessi gjörningur meirihluta stjórnar HS Orku hf gagnvart málefnum hitaveitunnar og sölu lands til Reykjanesbæjar.

Minnt er á það að lokum að allt skipulagsvald og ákvarðanir því tengdu eru í höndum Grindavíkurbæjar hér eftir sem hingað til.

Grindavíkurbær hefur gefið út skýra auðlindastefnu þar sem umgengi og nýting auðlinda innan lögsögu Grindavíkur hefur það sem eitt af meginmarkmiðum sínum að verndun út frá umhverfissjónarmiði og hagkvæm nýting auðlindar fari saman horft til framtíðar með komandi kynslóðir í huga, - ekki skammtíma gróða.

Íbúar einstakra sveitarfélaga og landsmenn allir eiga annað skilið en áfram sé haldið á sömu braut og "2007".

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri
Petrína Baldursdóttir, formaður bæjarráðs

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024