Íbúar að Dalsbraut 30 nota götuna Furudal sem bílastæði að staðaldri
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur tekið fyrir erindi frá Guttormi Guttormssyni þar sem m.a. er fjallað um lagningu bifreiða í göturamma Furudals í Innri-Njarðvík. Í erindi Guttorms segir að íbúar að Dalsbraut 30 noti götuna Furudal sem bílastæði að staðaldri. Almennt er fimm til níu bílum lagt samsíða í götunni fyrir undan Furudal 30, utan lóðarmarka lóðarinnar. Þetta skapar m.a. hættu fyrir almenna bílaumferð um Furudal og óþarfa þrengsli í götunni. Svipað vandamál er upp á teningnum fyrir framan Reynidal 1.
Mikil vandræði sköpuðust t.d. nú í vetur við snjóhreinsun og -mokstur, þar sem nokkrum bílum var lagt í göturammanum framan við húsið að Furudal 30. Þetta ástand varð m.a. til þess að þessi gatnamót voru alveg lokuð um tíma og einnig var mjög þungfært um gatnamótin Geirdal/Grenidal og voru íbúar hverfisins nánast lokaðir inni.
Óskað er eftir að settar verði upp merkingar um bann við að leggja í götunni með viðeigandi merkingum og gulum kantsteini. Þetta á bæði við um Dalsbraut og Reynidal.
Í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs segir að bifreiðastöður eru þegar óheimilar á hluta Reynidals, stækkun á því svæði verður ekki að sinni. Unnið er að stofnun bílastæðasjóðs en með honum á að vera betra tækifæri til að fylgja eftir bílastæðamálum.