Íbúakosningin kostaði 3 milljónir
Kostnaður Reykjanesbæjar vegna rafrænnar íbúakosningar um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík var 3.033.928 krónur. Auk þess greiddi Þjóðskrá kostnað við kosninguna. Íbúakosningin fór fram 24. nóvember til 4. desember síðastliðinn og tóku aðeins 8,71 prósent kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ þátt í henni.
Niðurstaðan varð sú að 50,4 prósent voru hlynnt breytingu á deiliskipulagi í Helguvík en 48,3 prósent á móti. Fyrr á síðasta ári höfðu um 2800 íbúar Reykjanesbæjar skrifað undir yfirlýsingu til Reykjanesbæjar þess efnis að efnt yrði til íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík vegna byggingar á kísilveri Thorsil ehf. við Berghólabraut.