Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Íbúakosning vefst fyrir ráðherra
Fimmtudagur 3. desember 2015 kl. 11:34

Íbúakosning vefst fyrir ráðherra

Bæjarstjóri býður fram aðstoð

Svo virðist sem rafræna íbúakosningin í Reykjanesbæ um deiliskipulag í Helguvík hafi vafist eitthvað fyrir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún segir frá því á Facebook-síðu sinni að hún hafi gert heiðarlega tilraun til þess að kjósa en ekki haft erindi sem erfiði. Ragnheiður ávarpar bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Kjartan Má, í pitli sínum og veltir því upp hvort þarna sé að finna ástæðu fyrir dræmri þátttöku í kosningunni. 

Tengd frétt: óheppilega dræm kjörsókn í íbúakosningunni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég skal ekki segja...kannski er ég bara ekki nógu vel gefin...en mér hefur ekki tekist að koma mínu atkvæði til skila. Ég reyndi fyrst í gegnum rafrænu skilríkin sem ég fékk einhvern tímann en hef aldrei þurft að nota...og mundi ekki eitthvað PIN númer sem ég átti örugglega að muna. Þá sótti ég um Íslykil..fór vandlega eftir leiðbeiningum um að skipta um lykilorð o.s.frv....en fékk svo alltaf meldingu um að ég væri með rangan Íslykil, “ segir ráðherra á Facebook. Því sjái hún ekki fram á að geta tekið þátt í kosningunni en eins og kunnugt er er Ragnheiður borinn og barnfæddur Keflvíkingur og búsett í Reykjanesbæ.

„Þannig að...ég mun sennilega ekki getað tekið þátt í kosningunni...hún var einfaldlega of flókin fyrir mig. Sorrý. En þetta skýrir "óheppilega dræma kjörsókn" hér á Heiðarbrúninni,“ bætir Ragnheiður við.

Kjartan er með svör á reiðum höndum og bendir á að Bókasafnið í Reykjanesbæ sé tilbúið að aðstoða ráðherrann við kosninguna.

„Sæl mín kæra Ragnheiður Elín Árnadóttir. Um 600 manns hafa getað klórað sig í gegnum þetta kerfi sem kollegi þinn, innanríkisráðherrann í nafni Þjóðskrár, ber ábyrgð á svo ég trúi ekki öðru en þú getir það líka! Annars erum við til þjónustu reiðubúin á Bókasafni Reykjanesbæjar.“

Ráðherra svarar um hæl.

„Þetta var skýringin á hinni "óheppilega dræmu" þátttöku hér á Heiðarbrúninni Kjarri minn. Ef þessi er ekki skýringin víðar þá er það væntanlega almennt áhugaleysi íbúanna á marklausri kosningu sem skýrir dræma þátttöku. En takk fyrir að benda á bókasafnið - ég næ því miður ekki þangað þar sem ég er utan þjónustusvæðis þess á opnunartíma.“ 

Þá bendir bæjarstjóri á að bókasafnið sé nú opið á laugardögum en þær upplýsingar höfðu farið framhjá ráðherra. Nokkrar umræðum sköpuðust í þræði ráðherra þar sem fólk tekur ýmist undir með ráðherra eða gefur leiðbeiningar um hvernig skuli standa að kosningunni. Einhverjir segja frá því að lítið mál hafi verið að kjósa.

Einar Bárðarsson athafnamaður slær á létta strengi og bendir Ragnheiði á að taka Sveppa sér til fyrirmyndar.

„Hurðu Ragnheiður! ef þú nærð að klára að kjósa þá er bara að fara í delete cookies og kjósa aftur. Það gerði Sveppi í gamla dag og hann varð sjónvarpsmaður ársins!“

Örn Úlfar Sævarsson fyrrum spurningahöfundur Gettu Betur, bendir á að rafrænu skilríkin hafi verið skilyrði þegar leiðréttingin var sett fram.

„Ríkisstjórnin setti rafrænu skilríkin sem skilyrði fyrir svokallaðri leiðréttingu. Það þótti nú ekki flókið þá.“

Íbúakosningnni lýkur klukkan 2:00 í nótt, aðfaranótt föstudags.