Íbúafundur um nýtt aðalskipulag í Suðurnesjabæ í kvöld
Kynning á tilllögum eftir hugmyndasamkeppni
Fimmtudagskvöldið 12. desember verður opin kynning á tillögum sem komust áfram í hugmyndasamkeppni um nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar. Dómnefnd valdi nýlega tillögur frá þremur teymum til áframhaldandi þátttöku.
Fulltrúar frá þeim þremur teymum sem komust áfram munu kynna tillögur sínar í upphafi fundarins og að því loknu gefst íbúum tækifæri til að ræða við höfundana og gefa skriflegt álit sitt á tillögunum í formi gulra límmiða sem safnað verður saman. Athugasemdir verða nýttar í framhaldinu til að velja það teymi sem mun vinna nýtt aðalskipulag í samstarfi við bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ.
Íbúafundurinn verður í aðalsalnum í Vörðunni, Sandgerði og hefst hann stundvíslega kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30 og þá gefst tækifæri til að skoða veggspjöld með tillögunum þremur auk þess sem heitt verður á könnunni.
Um er að ræða fyrsta sameiginlega aðalskipulag Suðurnesjabæjar.