Íbúafundur um áframhaldandi kísilver í Hljómahöll á morgun
Stakksberg áætlar að fjárfesta fyrir 4,5 milljarða í endurbótum á kísilverinu í Helguvík
Félagið Stakksberg áætlar að fjárfesta fyrir um 4,5 milljarða króna í úrbótum á kísilverksmiðju félagsins í Helguvík. Úrbæturnar miða að því að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu, koma til móts við athugasemdir íbúa í Reykjanesbæ og uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir starfsemi verksmiðjunnar. Tillaga að matsáætlun fyrir nýtt umhverfismat verksmiðjunnar var birt á vef Skipulagsstofnunar í dag en frestur til að skila inn athugasemdum við hana er til 5. desember 2018.
Úrbætur sem vinna gegn lyktar- og loftmengun
Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur kísilverksmiðjunnar í Helgvík í september 2017 og setti þá ákveðin skilyrði fyrir því að hún yrði gangsett á ný. Í kjölfarið var unnin úrbótaáætlun sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt og felur í sér aðgerðir sem miða að því að bæta rekstur verksmiðjunnar og vinna gegn lyktar- og loftmengun. Meðal þess sem stofnunin gerir kröfu um er að komið verði upp sérstökum skorsteini til að draga úr lyktarmengun og að hreinsun á útblæstri og meðhöndlun á ryki verði bætt. Að auki felur úrbótaáætlun Stakksbergs í sér að allur frágangur á lóð verksmiðjunnar verði bættur sem og aðstaða fyrir starfsfólk. Þá verður sérstakt umhverfisstjórnunarkerfi innleitt og þjálfun starfsfólks bætt. Áætlanir Stakksbergs gera ráð fyrir að fjárfesta þurfi 4,5 milljörðum króna í úrbótum til að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu.
Tillaga að matsáætlun kynnt á vef Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun samþykkti í apríl á þessu ári ósk Stakksbergs um að framkvæmt verði nýtt umhverfismat á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Með nýju umhverfismati vill Stakksbergs sérstaklega skoða hvaða áhrif starfsemi verksmiðjunnar hefur á loftgæði, meðal annars með nýjum útreikningum á dreifingu útblásturs. Skipulagsstofnun birti í dag tillögu Stakksbergs að matsáætlun og er frestur til að skila inn athugasemdum við hana til 5. desember næstkomandi. Tillagan er unnin af Verkís með hliðsjón af þeim 122 athugasemdum sem bárust við drög að tillögunni í júní, bæði frá almenningi og stofnunum. Formleg vinna við nýtt umhverfismat mun hefjast þegar Skipulagsstofnun hefur afgreitt endanlega matsáætlun.
Tillögu að matsáætlun má nálgast á vef Skipulagsstofnunar:
Stakksberg hefur boðað til íbúafundar í Hjómahöllinni á morgun, miðvikudaginn 21. nóvember, klukkan 20. Á fundinum munu ráðgjafar Stakksbergs kynna fyrirhugaða vinnu við nýtt umhverfismat og hvernig aðkoma almennings verður tryggð í því ferli. Fundinum verður streymt beint á vef Víkurfrétta, www.vf.is.
Íbúafundur í Hljómahöll á morgun