Íbúafundir um sameiningu Reykjanesbæjar, Voga og Suðurnesjabæjar
Íbúafundir um sameiningu sveitarfélaganna Voga, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar verða haldnir í upphafi næstu viku. Verkefnishópur um óformlegar sameiningarviðræður þessara sveitarfélaga boðar til íbúafundanna í því skyni að eiga samráð við íbúa varðandi mögulegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna, m.a. til þess að fá fram framtíðarsýn íbúa.
Fyrstu fundurinn verður í Tjarnarsal í Vogum mánudaginn 15. apríl kl. 20. Annar fundur verður á þriðjudag í Samkomuhúsinu í Sandgerði og sá þriðji í Hljómahöll í Reykjanesbæ á miðvikudag. Allir fundirnir hefjast kl. 20.
Íbúar geta einnig tekið þátt í fundunum í gegnum fjarfundakerfi (Teams) en tenglar á fundina og frekari upplýsingar verða birtar á vefsvæðum og Facebook-síðum sveitarfélaganna.
„Markmið verkefnahópsins er að draga saman helstu forsendur og gögn sem eru talin geta gert sveitarstjórnum þessara þriggja sveitarfélaga kleift að taka ákvörðun um hvort hefja eigi formlegar viðræður um sameining,“ segir Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum og formaður verkefnahóps um könnunarviðræður um sameiningu á Suðurnesjum.
Gunnar segir að það sé margt undir í þeirri skoðun, meðal annars fjárhagsleg sjónarmið sem kalla á greiningu á því hvernig fjárhagur nýs sameinaðs sveitarfélags myndi líta út. Svo eru það sameiginleg hagsmunamál. Eitt af verkefnum hópsins sé að skilgreina sameiginlega lykilhagsmuni og framtíðarsýn.
„Hópnum er m.a. ætlað að skoða hvort að með sameiningu verði til öflugri eining sem þjóni hagsmunum íbúanna betur en þær gera í sitthvoru lagi. Ég held að flestir líti svo á að ef til sameiningar kæmi þá þyrfti útkoman að vera skýr samlegð í rekstri og sá ábáti þarf auðvitað að skila sér til íbúanna, t.d. í formi meiri og betri þjónustu.
Síðast en ekki síst er það verkefni okkar að greina væntingar íbúanna og heyra hvaða málefni það eru sem helst brenna á þeim. Það yrði alltaf í þeirra höndum að taka hina endanlegu ákvörðun ef ákveðið verður að fara í formlegar viðræður og því er mikilvægt að kalla eftir og hlusta vel á þeirra raddir. Því vonumst við til þess að það verði góð þátttaka í íbúafundunum,“ sagði bæjarstjórinn í Vogum en frumkvæðið að viðræðum kom upphaflega frá Vogamönnum.