Íbúafundir bæjarstjóra: Víkingadraumurinn að rætast
-Mikil uppbygging í Innri-Njarðvík framundan.
Vonast er til að framkvæmdir við byggingu Víkingaheims við Fitjar hefjist á þessu ári. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar greindi frá þessu á íbúafundi í Innri Njarðvík í fyrrakvöld. Um 130 íbúar Innri-Njarðvíkur mættu á fundinn þar sem bæjarstóri greindi frá helstu framkvæmdum sem í gangi eru eða eru fyrirhugaðar á vegum Reykjanesbæjar.
Mikil uppbygging mun eiga sér stað á næstu tveimur árum í Innri-Njarðvík. Þar rís Akurskóli en tilboð í byggingu skólans voru opnuð í fyrradag. Byggingafyrirtæki Hjalta Guðmundssonar í Reykjanesbæ bauð lægst í byggingu skólans eða 407 milljónir króna. Kostnaðaráætlun bæjarins hljóðaði upp á 460 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að skólinn hefji starfsemi haustið 2005.
Nýlega var rúmum 200 íbúðum í Tjarnarhverfi úthlutað á vegum umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjanesbæjar. Mikill áhugi er á íbúðum á svæðinu en þar er gert ráð fyrir byggingu rúmlega 500 íbúða. Skýrði bæjarstjóri frá uppbyggingu Tjarnarhverfisins og sagði hann að hafist verði handa við gatnaframkvæmdir fyrir 1. og 2. hluta hverfisins fljótlega. „Við viljum að fólk geti keyrt inn malbikaða botnlanga og sjái götuheitin. Eftirspurnin eftir lóðum í fyrstu úthlutun var meiri en við gerðum ráð fyrir og svæðið mun byggjast hratt upp.“ Í hinu nýja Tjarnarhverfi verða götuheitin byggð á fuglanöfnum. Dæmi um nöfn í hverfinu eru Álftatjörn, Blikatjörn, Arnartjörn, Súlutjörn, Þrastartjörn og Spóatjörn.
Athugasemdir frá íbúum
Á íbúafundi bæjarstjóra með íbúum Innri-Njarðvíkur í fyrra voru athugasemdir íbúa skrifaðar niður og fór bæjarstjóri í gegnum það sem framkvæmt var í kjölfar þeirra athugasemda. Bárust bæjarstjóra nokkrar athugasemdir á fundinum á þriðjudagskvöld sem helst lúta að fjölgun hraðahindrana, ferða almenningsvagna, göngustíga og færslu leikvallar í Innri-Njarðvík.
Efling ferðaþjónustu eitt stærsta verkefnið
„Við viljum ná fleiri ferðamönnum í bæinn okkar og það er okkar stærsta verkefni. Til þess þurfum við ákveðna segla sem draga ferðamenn á svæðið og eru það sterkir að ferðamenn séu að heimsækja Ísland vegna þessara segla. Gott dæmi um slíkan segul er Bláa lónið sem dregur þúsundir ferðamanna til Íslands á hverju ári,“ sagði Árni Sigfússon á íbúafundi í Innri Njarðvík á þriðjudagskvöld.
Víkingaheimur að Fitjum og ferðaþjónusta við virkjun á Reykjanesi
Verkefni sem skilgreind eru sem slíkir seglar eru Víkingaheimur og víkingasýning Smithsonian safnsins. Einnig kynnti bæjarstjóri hugmyndir um að útbúin verði sérstök sýningarsvæði fyrir ferðamenn tengd virkjun Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi.
Á síðasta ári voru um 350 þúsund ferðamenn sem fóru fram hjá Reykjanesbæ frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjavíkur. Aðeins um 1% af þessum ferðamönnum komu til Reykjanesbæjar.
„Ég vil stefna að því að framkvæmdir við Víkingaheim hefjist á þessu ári. Allur undirbúningur miðar að því og við finnum fyrir stuðningi við verkefnið. Þetta er ein mikilvægustu stoðum í ferðaþjónustu í Reykjanesbæ,“ sagði Árni á fundinum.
Í tengslum við Víkingaheiminn er gert ráð fyrir að sýning Smithsonian safnsins, Vikings - the North Atlantic Saga verði sett upp. Einnig er gert ráð fyrir að komið verði upp söguslóðum í tengslum við Víkinga innan þorpsins.
Víkingasýning Smithsonian sem sett var upp í Washington á árinu 1999 þóttist takast afar vel. Sýningin var sett upp í fimm borgum innan Bandaríkjanna og var aðsókn að þeim mun meiri en væntingar stóðu til. Hluti af þeirri sýningu verður settur upp innan Víkingaþorpsins.
Fjármögnun vegna undirbúningsfélags Íþróttaakademíu á lokastigi
Á fundinum kynnti bæjarstjóri fjölmörg verkefni sem unnið er að í Reykjanesbæ og er þar stærst svokölluð Íþróttaakademía. Þar er gert ráð fyrir að svæðið við Reykjaneshöllina verði eitt alhliða íþróttasvæði með íþróttamannvirkjum og að þar verði aðstaða til náms á íþróttabrautum. Bæjarstjóri sagði að undirbúningur Íþróttaakademíunnar gengi vel og að fjármögnun til stofnunar undirbúningsfélags væri á lokastigi. Í hugmyndunum er gert ráð fyrir tengingu við háskólastigið á sviði íþróttanáms. „Á svæðinu er gert ráð fyrir að fram fari fjölbreytt námskeiðahald á sviði íþrótta fyrir íþróttaþjálfara, íþróttamenn, íþróttafélög og börn,“ sagði Árni. Sýndar voru skipulagsmyndir af svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að öll íþróttamannvirkin verði innan 800 metra radíuss.
Framkvæmt fyrir 6,2 milljarða í Reykjanesbæ á árinu 2004
Framkvæmt verður fyrir 6,2 milljarða króna á árinu 2004 í Reykjanesbæ. Inni í þeirri upphæð eru verkefni á vegum Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar, Varnarliðsins, Flugstöðvarinnar, Hitaveitu Suðurnesja og fleiri aðila. Önnur möguleg verkefni sem ekki eru inn í þessari tölu eru bygging Nausts Íslendings, stálpípuverksmiðja í Helguvík, Stjórnsýsluhús á Keflavíkurflugvelli og byggingaframkvæmdir í Tjarnarhverfi.
Kom fram hjá bæjarstjóra að í tengslum við þessi verkefni skapist um 130 störf í byggingariðnaði og 50 störf í þjónustu á þessu ári. Á árinu 2005 er gert ráð fyrir sama fjölda í byggingarstörfum en 80 í þjónustustörfum.
Ellefu þættir fyrirmyndarsveitarfélags
Atvinnumál, menntun og umhverfismál eru forgangsverkefni sem unnið er að innan Reykjanesbæjar og eru verkefnin hluti af ellefu atriðum sem bæjarstjóri segir að séu skilyrði þess að Reykjanesbær verði fyrirmyndarsveitarfélag. Önnur atriði sem teljast til forgangsverkefna eru að í Reykjanesbæ sé gott öryggisnet, landrými fyrir ný heimili og atvinnustarfsemi, lág glæpatíðni, lipur stjórnsýsla, góð heilbrigðisþjónusta, sanngjarnt verð fyrir þjónustu, fullnægja áhugasviðum íbúa og tryggja að auðvelt sé að sækja þjónustu.
Tölvumyndir af fyrirhuguðum gatnamótum á Fitjum og nýja Tjarnarhverfinu í Innri-Njarðvík.
Myndin: Frá íbúafundinum. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.