ÍAV tekur við gæslu í vallarhliði
ÍAV þjónusta tók við gæslu í hliðinu inná gamla varnarsvæðið sl. föstudag, en gæslan er hluti þriggja ára þjónustusamnings sem nýbúið er að bjóða út. Þrír aðilar skiluðu inn tilboði en samningurinn felur einnig í sér viðhald fasteigna í umsjón KADECO.
Á heimasíðu KADECO, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, kom fram að vaktaskiptin hafi tekist með miklum ágætum. Þar segir einnig að hjá embætti Lögreglunnar á Suðurnesjum hafi 12 manns unnið við vöktun á svæðinu og haldi þeir flestir til gæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Almenningur mun ekki finna mikið fyrir þessum breytingum, hliðið verður áfram opið alla daga frá 06:00 – 00:00. Þeir sem hafa erindi fá aðgang inná svæðið en ætlast er til að gestir hafi látið viðkomandi vita svo hægt sé að láta öryggisverði vita um komu þeirra. Auk þess að hafa tekið við hliðinu þá hafa þeir einnig umsjón með öryggisgæslu opinna svæða.
Áætlað er að í nánustu framtíð verði hliðið svo opnað almenningi þar sem vel gengur að breyta svæðinu í borgaraleg not.
Í tilefni þessara breytinga bauð KADECO uppá kaffi fyrir starfsmenn sýslumanns og var þeim þökkuð vel unnin störf en samstarfið við þá hefur verið með besta móti. Þá var og nýjum umsjónarmönnum öryggisgæslunnar afhentur lykill af hliðinu sem staðfestingu um að þeir hefðu tekið við.
Mynd: Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO, og Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri ÍAV þjónustu ehf.