Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 13. nóvember 2002 kl. 21:22

ÍAV bjóða starfsfólki upp á forvarnarstarf á sviði meltingarsjúkdóma

Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) og St. Jósefsspítali hafa gert með sér samkomulag um að meltingarsjúkdómadeild spítalans sinni forvarnarþjónustu til handa þeim starfsmönnum ÍAV sem þess óska á kostnað fyrirtækisins.  Sérstök áhersla verður lögð á almenna fræðslu fyrir starfsmenn ÍAV um algengustu meltingarsjúkdóma.  Þá verða gerðar rannsóknir á þeim sem hafa einkenni um vélindabakflæði eða hafa ættarsögu um krabbamein í maga og einnig rannsóknir á ristli hjá þeim starfsmönnum sem eru orðnir 45 ára og eldri.  Ítarleg ættarsaga hvers og eins mun verða skoðuð með tilliti til fjölskyldusögu og ristilkrabbameins og starfsmönnum skipt upp í áhættuhópa hvað þennan hættulega sjúkdóm varðar.Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbamein meðal Íslendinga.  Nokkur hluti er ættgengur og einnig eru þekktir ákveðnir sjúkdómar sem auka áhættu á krabbameinum.  Mikilvægt er að skilgreina áhættustig en langflest ristilkrabbamein greinast eftir fimmtugsaldur, en forstig, sem er góðkynja, myndast löngu áður og því er mikilvægt að greina það og fjarlægja til að breyta áhættu einstaklinga.  Vélindabakflæði er algengur sjúkdómur sem skerðir oft lífsgæði fólks og getur, ef ástandið varir lengi ómeðhöndlað, leitt til þrengsla og jafnvel breytinga sem síðan geta leitt til myndunar illkynja æxla.

"Það er okkur sönn ánægja að vera í fararbroddi fyrirtækja hér á landi til að bjóða starfsfólki upp á þennan möguleika sem hluta í heilsuvernd og forvarnarstarfi fyrir starfsmenn okkar.  Við höfum unnið að þessu máli síðustu mánuði og með þessu vilja Íslenskir aðalverktakar stuðla að auknu heilbrigði starfsmanna", segir Stefán Friðfinnsson, forstjóri, sem jafnframt segist skora á önnur fyrirtæki að fylgja fordæmi ÍAV.

Árni Sverrisson framkvæmdastjóri spítalans sagði þetta vera kærkomið tækifæri til þess að halda áfram að efla og þróa þjónustu meltingarsjúkdómadeildar spítalans.  Þetta er jafnframt rökrétt framhald af þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um krabbamein og hvernig best er að bregðast við því, þ.e.a.s. með auknu forvarnarstarfi þar sem áhersla er lögð á fræðslu og kynningu.  Samningurinn gefur okkur tækifæri á því að meta það hvernig best verður staðið að svona málum í framtíðinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024