Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Í tilefni viðtals við blaðamann Víkurfrétta í Kastljósi
Miðvikudagur 12. október 2005 kl. 18:36

Í tilefni viðtals við blaðamann Víkurfrétta í Kastljósi

Í viðtali við Atla Má Gylfason, blaðamann og ljósmyndara á Víkurfréttum, í Kastljósi sl. mánudagskvöld ræddi Atli Már m.a. um lista yfir farþega og matseðla „fræga fólksins”. Svo það sé alveg á hreinu þá hafa Víkurfréttir ENGAN aðgang að farþegalistum flugfélaganna og hafa aldrei haft. Við höfum hins vegar okkar upplýsingar frá umboðsmönnum og umboðsskrifstofum.

Það er mjög algengt að umboðsmenn hringi í okkur og láti vita af komu „fræga fólksins”, hvort sem um er að ræða tónlistarfólk eða aðra. Þá fáum við nákvæmar upplýsingar hvaða fólk er að koma og með hvaða flugvélum. Þær upplýsingar koma ekki úr flugstöðinni.

Við eigum okkar heimildarmenn út um allt. Það fréttist þegar frægt fólk er í flugstöðinni. Víkurfréttir hafa þá sérstöðu að þær sinna ÖLLUM stóru fjölmiðlunum, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, DV, Stöð 2, Sýn og nú erum við einnig að þjónusta Ríkissjónvarpið. Þúsundir fara um flugstöðina hvern dag og eitthvað af því fólki á vini og kunningja á þessum fréttamiðlum. Þeir fá hringingu og biðja okkur síðan að fara í málið. Eitthvað af þessu fólki sem á leið um Leifsstöð er Suðurnesjafólk sem þekkir til einhverra starfsmanna Víkurfrétta og þannig fáum við ábendingar úr flugstöðinni. ALDREI hafa þetta verið ábendingar eftir einhverjum farþegalistum, sem starfsfólk í flugstöðinni er að leka út. Það er bara alls ekki til í dæminu.

Fyrir mörgum árum reyndum við að hringja í flugstöðina og spyrjast fyrir um sögusagnir um frægan leikara sem var á leiðinni til landsins. Sú sem þá svaraði í símann hjá Icelandair kunni sitt fag, tjáði sig ekki um málið og skýrði reglurnar fyrir okkur blaðamönnum á Víkurfréttum um hina einu sönnu farþegalista. Síðan þá er áratugur eða meira og ekki hefur okkur dottið í hug að reyna þessa aðferð aftur.

Það kann að vera að svarið hjá Atla Má hafi gefið ástæðu til oftúlkunar og þannig sett starfsfólk í Leifsstöð í vanda og að það liggi nú undir grun um að vera að fletta farþegalistum í kaffipásum og leka þeim í Víkurfréttir. Svo er ekki. Enda sagði Atli Már ekki „farþegalista” heldur „lista yfir farþega” sem er ekki sama og eiginlegur „farþegalisti” sem hefur að geyma nöfn allra farþega í viðkomandi ferð.

Því er þó ekki að neita svar Atla í viðtalinu var þannig að auðveldlega var hægt að misskilja það. Starfsmenn í Leifsstöð sem hafa aðgang að farþegalistum flugfélaganna geta svarað því án þess að blikna að við erum ekki að biðja það um farþegalista. Það er því nokkuð ljóst að gerður hefur verið úlfaldi úr mýflugu í þessu máli og þykir okkur hér á Víkurfréttum það miður. Atli Már er okkar yngsti blaðamaður og ljósmyndari, er áhugasamur og hefur komið inn með skemmtilega takta með ákafa sínum og krafti. Kannski út af hans ákafa og reynsluleysi fjallaði hann um þetta mál á annan veg en það er í reynd í sínu fyrsta „alvöru“ sjónvarpsviðtali.

Við viljum nota þetta tækifæri og biðja þá aðila og starfsmenn í Leifsstöð afsökunar sem hafa þurft að svara fyrir þessi ummæli í þættinum. Þau eru á misskilningi byggð.
Vonumst til, hér eftir sem hingað til, að geta áfram átt gott samstarf við fólkið í og við Leifsstöð sem og alla íbúa svæðisins.

Páll Ketilsson, ritstjóri.
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024