Í skoðun að hækka húsaleigu í félagslega íbúðakerfinu
Stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar, sem hefur með að gera rúmlega 200 félagslegar leiguíbúðir bæjarfélagsins, skoðar hvort mögulegt sé að hækka húsaleigu til að bæta rekstur félagsins. Stjórnin sér fram á mikinn rekstrarvanda og hefur falið framkvæmdastjóra félagsins að gera tillögur um tekjuaukningu og leggja fram á næsta fundi.
Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, vakti máls á þessu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Sagði hann viðvarandi rekstrarhalla síðustu sára kalla á heildarendurskoðun á fjármálum bæjarins og heildarfjármögnun. Nefndi hann Reykjaneshöfn, Eignarhaldsfélagið Fasteign og Fasteignir Reykjanesbæjar í því sambandi. Taldi hann að forðast ætti að hækka húsaleigu hjá þeim „sem minnst mega sín“. Bæjarfélagið ætti fremur að setja aukið fé inn í félagið.
„Það að hækka álögur á þá sem minnst mega sín á ekki að vera það fyrsta sem menn grípa til í því skyni að koma til móts við alvarlega stöðu bæjarins í fjármálum,“ sagði Eysteinn.
„Það er rétt að um ákveðinn rekstrarvanda er að ræða hjá Fasteignafélagi Reykjanesbæjar og nauðsynlegt að taka á þeim vanda með einhverjum hætti. Framkvæmdastjóra var falið að kanna hvort mögulegt væri að hækka einhverja leigu hjá viðkomandi íbúum. Þar með er ekki sagt að búið sé að samþykkja eitt eða neitt. Eingöngu er verið að kanna hvort þetta sé gerlegt,“ sagði Gunnar Þórarinsson, forseti bæjarstjórnar og stjórnarmaður í Fasteignum Reykjanesbæjar. Sagði hann til greina koma að selja eignir út úr félaginu til að létta á skuldabyrði þess en hækkandi verðbólga undanfarin ár hefði verið helsti vandi félagsins.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði ósanngjart að halda því fram að nú væri komið að framlagi Reykjanesbæjar. Ekki mætti gleyma því að þær ríflega 200 íbúðir, sem þarna væri um ræða, hefðu verið fjármagnaðar með 90% framlagi Íbúðalánasjóðs. Reykjanesbær fjármagnaði þau 10% sem upp á vantaði. Því hefði sveitarfélagið vissulega komið að fjármögnun á þessum íbúðum.
„Það má ekki heldur gleyma því að fyrir fjórum árum gerði bæjarráð samkomulag við Fasteignir Reykjanesbæjar um sérstakt framlag til félagsins sem fór stiglækkandi, byrjaði í 20 milljónum og lækkaði um 5 milljónir á ári í fjögur ár í þeim tilgangi að gefa félaginu tækifæri að endurskipuleggja fjárhag sinn þannig að til framtíðar þyrfti ekki að koma til sérstök framlög frá bæjarsjóði.
Leiga hjá Fasteignum Reykjanesbæjar er langt undir viðmiðun íbúðalánasjóðs fyrir félagslegar leiguíbúðir og mér finnst þess vegna vert að skoða og bera saman leiguverð á félagslegum leiguíbúðum í Reykjanesbæ og sambærilegum íbúðum í öðrum sveitarfélögum. Ég get vel ímyndað mér að við værum með lága leigu í samanburði við aðra, a.m.k mörg önnur sveitarfélög, sem bjóða upp á sömu þjónustu. Það er bara mjög gott að stjórnin sé að fara í gegnum þetta og vonandi koma fram tilögur í framhaldi af því,“ sagði Böðvar ennfremur.
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Reykjanesbæ