Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Í siglingar með ríka ferðamenn
Föstudagur 20. júlí 2012 kl. 10:30

Í siglingar með ríka ferðamenn

Glæsileg snekkja sigldi í höfn í Keflavík síðdegis á mánudag. Hún er í eigu tveggja heimamanna en þeir Einar Steinþórsson og Garðar Ketill Vilhjálmsson eru eigendur snekkjunnar. Hún verður nýtt í ferðaþjónustu og gerð út í styttri sem lengri lúxusferðir fyrir fjáða ferðamenn. Þeir félagar sjá mikla möguleika enda fjölgar ferðamönnum ár frá ári sem hafa mikið á milli handanna og vilja dýrari ævintýri á Íslandi. Víkurfréttir tóku á móti snekkjunni í Keflavíkurhöfn og ræddu við skipstjórann Einar Steinþórsson.



- Hvaða hugmyndir eru með þessa snekkju?
„Hugmyndirnar eru þær að gera þessa snekkju út fyrir hópa í sjóferðir. Það getur verið allt frá hálfsdagsferð eða kvöldferð eða upp í það að vera dagsferðir eða ferðalög í fleiri daga. Þá eru möguleikar að fara í siglingu á Breiðafjörðinn eða í styttri ferðir í Hvalfjörðinn og hugsanlega út að Eldey. Snekkjan býður einnig möguleika á að fara í hvalaskoðun eða veiði en við ætlum að vera með sjóstangir um borð þannig að farþegar geti veitt“.

- Hverjir eru að fara að gera snekkjuna út?
„Snekkjan er að koma frá Grikklandi. Þar var hún sett á flutningaskip og flutt til Skotlands og þaðan sigldum við henni til Íslands. Fyrirtækið sem á skipið heitir Snekkjan ehf. og eigendur eru Einar Steinþórsson, Garðar Ketill Vilhjálmsson og fjölskyldur“.

- Hver eru næstu skref?
„Nú þarf að skrá snekkjuna sem farþegabát á Íslandi og ég geri ráð fyrir að það ferli taki tvær til þrjár vikur. Heimahöfnin verður í Reykjavík en snekkjan hefur fengið pláss við Ingólfsgarð neðan við Hörpu,“ sagði Einar í samtali við Víkurfréttir.

Snekkjan mun geta tekið 30 farþega í dagsferðir en í lengri ferðum og gistingu þá er hægt að taka sex farþega. Eldhús er um borð í snekkjunni, sjónvarp í hverjum klefa og allir klefar með sér baðherbergi. Ferðalagið með Snekkjunni, sem fær nafnið Harpa, er sagt vera mjög þægilegt. Samtals eru 1100 hestöfl sem koma snekkjunni í 24 sjómílna ferð þegar aðstæður eru bestar en tvær 12 cyl. Man-vélar eru í neðan þilja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024