Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Í návígi við byssukúlurnar á Vatnsleysuströnd
Fimmtudagur 30. janúar 2003 kl. 13:27

Í návígi við byssukúlurnar á Vatnsleysuströnd

Hjónin Davíð Ragnar Bjarnason og Unnur Karlsdóttir búa á neðri hæð einbýlishússins að Auðnum á Vatnsleysuströnd ásamt dóttur sinni Aðalheiði Rut Davíðsdóttur og syni hennar Klemens Frey, fjögurra og hálfs mánaðar gömlum. Síðastliðið laugardagskvöld var ekki eins og laugardagskvöld sem þau eiga að venjast, en þá tók hálffertugur maður á efri hæð hússins að skjóta af riffli. Þau lýsa atburðarrásinni þannig:„Sambýliskona mannsins kom heim og leit við hjá okkur, en hún var að búa sig til brottfarar til Reykjavíkur. Hún stoppaði hjá okkur í smá tíma með mánaðargamalt barn sitt, en áður en hún lagði af stað ákvað hún að fara upp til mannsins og kveðja hann,“ segir Davíð sem ákvað þá að fara upp á bílaplanið fyrir ofan húsið: „Þegar ég kom þangað heyrði ég að einhver orðaskipti áttu sér stað. Konan kom út úr húsinu stuttu seinna og ég spurði hana hvað hún ætlaði að gera. Þá sagði hún mér að hann ætli að drepa sig og við sáum manninn ganga út úr húsinu og út í hlöðu. Hann kom til baka með riffil og fór aftur inn í húsið. Ég reyndi að kalla til hans og ræða við hann en það þýddi ekkert. Ég tók þá konuna með mér inn til okkar og þá heyrðum við fyrsta skothvellinn, en þeir voru mjög háir. Konan varð mjög hrædd um að maðurinn hafi slasað sig og fór út aftur. Þegar hún kom að hurðinni á efri hæðinni þá heyrði hún tvo skothvelli til viðbótar. Hún varð mjög hrædd og við fórum inn til okkar aftur og inn á baðherbergi, þ.e. ég, konan mín, dóttir okkar og sonur hennar ásamt sambýliskonu mannsins og barni hennar,“ segir Davíð.
Þau voru öll mjög hrædd þegar þau voru komin inn á baðherbergið, enda heyrðu þau að maðurinn hélt áfram að skjóta. Aðalheiður segir að þau hafi hringt í Neyðarlínuna úr baðherberginu en þá var klukkan um hálfsjö: „Við hringdum í 112 úr baðherberginu og tilkynntum um að það væri verið að skjóta á efri hæðinni. Við vorum í símasambandi við neyðarlínuna allan tímann sem við vorum á baðherberginu,“ segir Aðalheiður og bætir því við að þau hafi skolfið af hræðslu og um leið hrædd um að maðurinn kæmi út og færi að skjóta inn um gluggana á neðri hæðinni: „Við náttúrulega vissum ekkert í hvaða ástandi maðurinn var og ég var mest hræddur um að hann kæmi út og færi að skjóta. Við slökktum öll ljós og myrkvuðum húsið gjörsamlega,“ segir Davíð og það er erfitt að ímynda sér aðstæðurnar sem voru á staðnum, en þær minna helst á atriði úr hasarmynd.
Á meðan þau dvöldu á baðherberginu flugu allskyns hugsanir í gegnum huga þeirra og Davíð segir að þau hafi heyrt marga skothvelli: „Ég taldi 12-16 skothvelli [innsk. blm. samkvæmt upplýsingum Lögreglunnar í Keflavík var skotið á milli 15-20 skotum inni í íbúðinni] . Við hrukkum í kút við hvern skothvell og á meðan vorum við í stöðugu sambandi við lögregluna í gegnum síma. Við vorum allan tímann hrædd um að maðurinn kæmi niður því það er innangengt úr efri íbúðinni í þá neðri og aðeins spónaplata sem er á milli.“ Á meðan á þessu gekk ræddu þau um hvernig þau myndu bregðast við ef maðurinn kæmi niður. Unnur hélt á dóttursyni sínum og segir Aðalheiður að hún hafi verið hrædd um barnið: „Mamma hélt á stráknum og hún var búin að ákveða það að ef maðurinn kæmi niður og myndi byrja að skjóta þá ætlaði hún að leggjast yfir Klemens til að reyna að bjarga honum þannig,“ segir Aðalheiður og lítur á Klemens.
Davíð segir að þau hafi allan tímann á meðan þau voru á baðherberginu í kolniðamyrkri haldið ró sinni. Þegar maðurinn var búinn að skjóta skotunum inni í íbúðinni fór hann út og keyrði á bíl sínum beint í flasið á lögreglunni sem hafði komið sér fyrir við afleggjarann að húsinu. Á milli sætanna í bíl hans fannst riffillinn sem var 223 kalíbera: „Við heyrðum ekki þegar maðurinn fór út og við einfaldlega héldum að hann hefði slasað sig þegar skothvellirnir hættu. Við vorum alltaf í símasambandi við lögregluna og þegar þeir voru búnir að handtaka manninn sögðu þau okkur það. Við urðum strax rólegri þegar við heyrðum það en okkur var sagt að vera áfram inni á baðinu,“ segir Davíð, en þegar lögreglan handtók manninn var sérsveit Ríkislögreglustjóra á leið á vettvang. Hennar hlutverk var að tryggja vettvang því ekki var vitað hvort annað fólk var á efri hæðinni: „Allt í einu er bankað á gluggann og þá sáum við Víkingasveitarmann, en þeir voru að athuga húsið. Ég fór fram og opnaði fyrir þeim og þá kom Víkingasveitarmaður inn og beið hjá okkur til að tryggja öryggi okkar. Á meðan þeir voru að tryggja svæðið þurftum við að bíða inni á baði og það hefur örugglega verið einn og hálfur klukkutími.“ Þegar búið var að tryggja vettvang og ljóst að öryggi íbúanna hafði verið tryggt var fjölskyldunni boðið upp á áfallahjálp en sr. Sigfús B. Ingvason kom á staðinn til að ræða við fjölskylduna.
Fjölskyldan segir að nú taki við óvissutímabil því einhvern tíma komi maðurinn til baka. Davíð segir að þau muni ekki búa þarna áfram: „Ef að maðurinn kemur til baka þá höfum við enga tryggingu fyrir því að hann geri þetta ekki aftur. Okkur finnst það skrítið að manni sem hefur skotið af riffli inni í húsi skuli vera sleppt eftir 24 klukkutíma. Lögreglan gat ekki haldið honum lengur en í sólarhring af því hann slasaði ekki neinn né drap. Við erum með tæplega fimm mánaða gamalt barn hérna og okkur finnst þetta vera mjög óþægileg staða. Maðurinn getur birst hvenær sem er og þá viljum við ekki vera hér.“
Aðalheiður sem býr hjá foreldrum sínum ásamt barni er í barneignafríi og hún er ein heima á daginn. Hún segist ekki geta hugsað sér að vera ein með barnið ef maðurinn kæmi heim og væri á efri hæðinni. Davíð segir að þau muni flytja og að það muni gerast innan nokkurra daga: „Við ætluðum nú bara að búa hér tímabundið en við höfum verið hér í fjóra mánuði. Okkur hefur liðið vel hér en það var alltaf á dagskránni að flytja, en þetta atvik varð til þess að við erum strax farin að leita fyrir okkur,“ segir Davíð.
Davíð segir að þau þakki lögreglunni fyrir frábær vinnubrögð og sérstaklega eru þau ánægð með að hafa verið í símasambandi þegar lætin voru sem mest: „Það eina sem við getum gagnrýnt er það hve maðurinn slapp fljótt út. Við erum ekki örugg hér ef hann kemur aftur. Við ákváðum að tala við Víkurfréttir til að vekja athygli á því hve löggjöfinni er ábótavant þegar kemur að svona málum. Það er ekki eðlilegt að maðurinn geti gengið um göturnar daginn eftir að hann hleypir skotum af öflugum riffli innandyra. Maður sem drepur engan en hleypir af í kringum 20 skotum inn í húsi fær að ganga út frá lögreglunni 24 tímum seinna. Það er eitthvað að í kerfinu. Menn sem gera svona erlendis eru hiklaust settir í gæsluvarðhald í langan tíma og síðan dæmdir í fangelsi.“
Fjölskyldan ætlar að taka sér tíma til að jafna sig, enda hlýtur þessi lífsreynsla að setja mark sitt á líf þeirra sem lenda í slíku. Unnur segir að næstu daga muni þau leita sér að nýju húsnæði og nota tímann til að jafna sig á þessari lífsreynslu. Þau njóta enn áfallahjálpar og segir Unnur að það sé mjög mikilvægt: „Þetta er lífsreynsla sem gleymist ekki og við höldum áfram að lifa enda höfum við dóttur okkar og yndislegt barnabarn við hlið okkar,“ segir Unnur að lokum.



Atburðarásin:

Klukkan 18.29
• Lögreglu barst tilkynning um ölvaðan mann skjótandi af riffli á efri hæð íbúðarhússins að Auðnum.

Nokkrum mínútum seinnar er sérsveit Ríkislögreglustjóra kölluð út.

Klukkan 19.01
• Maðurinn gefur sig fram við Lögregluna í Keflavík. Maðurinn er handtekinn.

Klukkan 19.39
• Komið með hinn handtekna á Lögreglustöðina í Keflavík.

Klukkan 19.40
• Lokun á Vatnsleysustrandarvegi aflétt.

Klukkan 19.57
• Sérsveit Ríkislögreglustjóra fer inn í húsið og tryggir vettvang.

Húsleit fer fram og stendur hún til klukkan 2 um nóttina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024