Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Í mörgu að snúast hjá lögreglunni
Sunnudagur 17. október 2004 kl. 10:01

Í mörgu að snúast hjá lögreglunni

Helgin er búin að vera annasöm hjá lögreglunni í Keflavík. Óvenjulegur fjöldi útkalla sjúkrabíla var í gær og voru sjúkrabílarnir í Grindavík settir í viðbragðsstöðu í kjölfarið. Mikið var um útköll lögreglu í nótt og var töluverður erill á lögreglumönnum sökum dansleiks sem fram fór í Garði. Þá réðust fjórir menn að einum í Grindavík og var hann meðvitundarlaus þegar Lögreglan kom á staðinn. Einnig gekk maður berserksgangi á Hafnargötu í Keflavík.

Í gærkvöldi um kl. 20:00 var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut, skammt vestan við gatnamót Grindavíkurvegar. Ökumaður á leið til Keflavíkur hafði ekið á ljósastaur en hann var einn í bifreiðinni. Ökumaðurinn var fluttur til frekari skoðunar í Reykjavík, hann er grunaður um ölvun við akstur. Bifreiðin var óökufær og flutt á brott með dráttarbifreið af staðnum.

Um 21:30 var útafakstur tilkynntur á Garðskagavegi nærri Leiru, ökumaður á leið út í Garð missti vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og staðnæmdist á hvolfi. Ökumaðurinn var fastur í bílbeltinu þegar lögreglu bar að og var hann með meðvitund. Bifreiðin var mjög illa farin og ökumaðurinn var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Einn ökumaður var stöðvaður á Grindavíkurvegi fyrir of hraðan akstur.

Rétt fyrir miðnætti var óskað eftir lögreglu að fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ vegna hávaða í fólki. Fólkið lofaði að taka tillit til íbúa og hafa lægra.

Kvartað var undan hávaða frá samkvæmi í íbúðarhúsi í Grindavík. Lögreglumenn vísuðu fólki frá og leystist gleðskapurinn upp.

Um kl. 02:35 var tilkynnt um slagsmál í Grindavík. Er lögreglumenn komu á staðinn sáu þeir hvar maður lá meðvitundarlaus á jörðu og hópur af fólki í kring um hann. Að sögn vitna sem þarna voru munu fjórir aðilar, sem farnir voru, hafa gengið í skrokk á manninum með höggum og spörkum. Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar og þaðan á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi til frekari rannsóknar. Kannað var með hinn slasaða og fengust þær upplýsingar að hann hafi hlotið heilahristing og fengi mjög fljótlega að fara heim.

Þá var töluverður erill hjá lögreglu vegna dansleiks er haldinn var í Garði. Aðilar sem þar voru fyrir utan voru til vandræða.

Í nótt var tilkynnt að maður væri læstur í lyftu í fjölbýlishúsi. Lögreglumenn fóru og frelsuðu manninn.

Einn aðili gistir fangaklefa þar sem hann var ölvaður og til vandræða.

Ung kona datt og slasaðist á höfði á skemmtistað í Keflavík.

Um 06:00 í morgun höfðu lögreglumenn afskipti af þremur unglingum vegna brota á útivistartíma.

Afskipti voru höfð af manni er gekk berserksgang á Hafnargötu og að sögn vitna hafði hann skemmt bifreið sem þar var. 

Einn ökumaður var staðinn að akstri sviptur ökuréttindum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024