Í hvaða stöðu erum við ef að heilindin eru ekki meiri en þetta?
„Ég var búinn að heyra léttan ávinning af þessu fyrir nokkrum dögum síðan. Ég trúði þessu alls ekki og alls ekki í framhaldi af því sem Ross Beaty sagði við okkur sjálfa á fundi í vor þar sem hann ræddi við okkur persónulega. Ég er alveg gáttaður á bréfi þessa manns og þetta setur málið í allt aðra stöðu,“ sagði Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði í viðtali á Bylgjunni nú í morgun.
Í viðtalinu nefndi Ásmundur að hann hefði heimildir fyrir því að Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi tekið um það ákvörðun um að selja hlut Geysis Green til Magma frekar en til lífeyrissjóðanna og Norðuráls, sem einnig hafi sýnt hlutnum áhuga. Aðspurður hvort einhver ástæða sé fyrir því, svaraði Ásmundur að ástæðan sé kannski að koma fram núna með þessu bréfi Ross Beaty.
- Þú segir að þetta passi ekki við það sem Ross hefur sagt við ykkur, spyr Heimir Karlsson, þáttastjórnandi á Bylgjunni, Ásmund í morgun.
„Nei, við hittum þennan ágæta mann í Svartsengi þegar hann var að skrifa undir þessa samninga. Þar sátu þeir fyrir svörum og sögðu sín framtíðarplön. Síðan ræddi ég persónulega við þennan mann á leiðinni út og lýsti ánægju minni með það sem hann sagði og ég hlakkaði til þess að fá svona öflugan aðila inn á svæðið til að hjálpa okkur að koma málum á stað. Ég er í öngum mínum núna yfir því sem er að gerast í þessu máli“.
Ásmundur segist ekki hafa trúað þessu á sínum tíma en sér finnist þessi hringur vera að lokast á einkennilegan hátt núna.
„Við höfum sýnt þessu verkefni allan þann stuðning sem við höfum getað. Hér ríkir slæmt ástand og það hefur með vonaraugum verið horft til þessa verkefnis og að því verði komið á koppinn.
Við höfum ekki vitað annað en að það væru allir aðilar þessa máls að vinna heils hugar að því“.
Ásmundur segir að ef þessi ummæli eru rétt, sem sögð eru í þessu bréfi, þá er þessu máli snúið á haus miðað við upphafleg áform.
- Hvað getið þið gert, spyr Heimir.
„Maður bara horfir hérna yfir flóann og þetta fallega land hérna og er bara að hugsa, í hvaða stöðu erum við ef að heilindin eru ekki meiri en þetta í þeim verkefnum sem verið er að vinna?“.
Ásmundur segir nauðsynlegt að ljúka þeim verkefnum sem búið er að ákveða að fara í. Það liggur fyrir, fyrir mörgum árum og misserum síðan, að þetta verkefni skuli rísa.
„Við höfum ekki verið á móti því að það verði fundnar leiðir til að vinna hér græna orku áfram eins og við erum að gera í grænum verkefnum. Við erum mjög hlynt því. Við þurfum hins vegar að klára þau verkefni sem búið er að ákveða. Þar stendur hnífurinn í kúnni“.
Ásmundur talaði um óheilindi í kringum málið og að ef það reynist rétt sem kemur fram í bréfinu sem vitnað er til í Fréttablaðinu í dag, þá sé það algjörlega að koma í bakið á fólki og valdi sér miklum vonbrigðum.