Í hæsta forgangi að koma til móts við foreldra
Fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar, Beinnar leiðar og Umbótar í fræðsluráði Reykjanesbæjar lögðu fram eftirfarandi bókun vegna stöðu leikskólaplássa í Reykjanesbæ á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar.
„Í Reykjanesbæ hefur fjölgun íbúa verið mjög mikil undanfarin ár. Í því samhengi má nefna að síðustu 12 mánuði hefur fjölgunin verið 7,7% en slík fjölgun telst mikil á einu ári. Íbúar Reykjanesbæjar voru í júlí 2022 orðnir 21.420 talsins. Alls eru 1.478 börn á aldrinum 0-5 ára í bænum okkar en fjölgun barna á þessu aldursbili hefur verið mjög hröð. Árgangurinn 2020 er til að mynda stærsti árgangur sveitarfélagsins sem farið hefur í leikskóla.
Í Reykjanesbæ eru alls 11 leikskólar og hafa öll tæplega 300 börnin fædd árið 2020 fengið pláss í leikskóla. Ljóst er að börn fædd 2021 bíða því eftir lausu plássi sem losna alla jafna ekki fyrr en elsti árgangurinn fer í skóla, en við höfum alla jafna ekki náð að taka inn börn undir tveggja ára vegna fjölda barna.
Reykjanesbær vex sem aldrei fyrr og verðum við að horfa í breyttar aðstæður. Foreldrar sem til okkar flytja þurfa dagvistunarúrræði og við sem sveitarfélag á öflugu atvinnusvæði verðum að svara því kalli. Fjölgun íbúa er vissulega áskorun en að sama skapi tækifæri.
Fyrirhugað er að þrír nýir leikskólar opni í Reykjanesbæ á næstu árum: Leikskóli í Dalshverfi 3, leikskóli í Hlíðahverfi auk þess sem leikskólinn í Stapahverfi klárast. Skipulagsvinna við alla leikskólana er hafin en komin mislangt á veg. Þar til þessar byggingar verða tilbúnar er ljóst að grípa þarf til annarra úrræða til að brúa bilið. Aðgerðaáætlun því tengd er hafin þar sem kannaðir eru möguleikar til fjölgunar dagvistunarúrræða auk mögulegrar stækkunar við núverandi leikskóla.
Við viljum árétta að málefnið er í hæsta forgangi og leitað verður allra leiða til að koma til móts við foreldra í samfélaginu okkar. Um leið og við höfum frekari svör til kynningar munu þau verða birt og reynt að hraða ferlinu eins faglega og hægt er í hag barnanna í Reykjanesbæ.“
Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sighvatur Jónsson, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Sævarsdóttir.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun á sama fundi:
„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að það verði strax farið í aðgerðir við að finna skammtímalausnir í dagvistun barna í Reykjanesbæ á meðan uppbygging á leikskólum á sér stað.
Það þarf að skoða alla möguleika til að fjölga leikskólakennurum og leikskólum. Það þarf að efla dagforeldrakerfið með stuðningi Reykjanesbæjar og vinna með foreldrum að fjölbreytilegum lausnum.
Skoða hvort hægt sé að færa hluta af 5 ára börnum inn í grunnskóla til skammtíma undir eftirliti fagfólks til að fleiri börn fái úrræði.
Greiða foreldrum barna sem eru heima eftir 18 mánaða aldur styrk á meðan beðið er eftir leikskólaplássi.
Finna bráðabirgða húsnæði fyrir leikskólabörn á meðan verið er að klára byggingu leikskóla.“
Gígja Sigríður Guðjónsdóttir.