Í gæsluvarðhald vegna vændisrannsóknar
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði á föstudag karlmann og konu um fertugt í gæsluvarðhald í viku vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á meintri vændisstarfsemi.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur að undanförnu fylgst með tæplega fertugri, lettneskri konu vegna gruns um tengsl hennar við mansal. Talið var hugsanlegt að konan stæði að flutningi ungra kvenna til Íslands vegna vændisstarfsemi.
Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að umrædd kona stundaði sjálf vændisstarfsemi hér á landi og þá undir mismunandi nöfnum. Konan var handtekin í gær, ásamt íslenskum karlmanni á svipuðum aldri. Hann er talinn hafa aðstoðað hana við starfsemina.
Nokkrir tugir ætlaðra viðskiptavina konunnar hafa verið yfirheyrðir vegna málsins. Maðurinn og konan eru enn í haldi lögreglu, sem ekki mun veita frekari upplýsingar um málið að sinni, þar sem rannsókn þess er á frumstigi.