Í fyrsta skipti vinna nemendur sjálfir að því að draga úr einelti á netinu
Það er óhætt að segja að mörgum hafi brugðið við að hlusta á Eirík Guðna Ásgeirsson rannsóknarlögreglumann og sérfræðing í tölvurannsóknum á málþingi Menntaskólans á Ásbrú (MÁ) sl. mánudag um samskipti á stafrænum miðlum. Eiríkur Guðni fór yfir hvaða afleiðingar óæskilegar framkoma og samskipti geta haft.
Eiríkur Guðni og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hófu málþingið með erindinu: „Fótspor inn í framtíðina -hvað geri ég og hvað skil ég eftir?“. Erindið var flutt fyrir fullum sal af nemendum og starfsfólki MÁ ásamt námsráðgjöfum úr öðrum skólum á Suðurnesjum. Að sögn þeirra Eiríks Guðna og Öldu Hrannar var þetta að öllum líkindum í fyrsta skiptið sem slíkt málþing hefur verið haldið í framhaldsskóla hér á landi.
Málþingið er samstarfsverkefni starfsfólks MÁ, nemendafélagsins Örgjörvans og Lögreglunnar á Suðurnesjum. Fulltrúar MÁ leituðu til embættisins í haust um að koma að málþinginu. Að sögn þeirra Eiríks Guðna og Öldu Hrannar var mikilvægt að fá tækifæri til að eiga samtal við nemendur um alvarleika ofbeldis, eineltis og annars konar neikvæðar hegðunar á stafrænum miðlum því það hefur veigamikið forvarnargildi í för með sér. „Lögreglan er ánægð og þakklát fyrir að hafa fengið að hitta þennan flotta nemendahóp og ræða þetta mikilvæga málefni. Frábærar viðtökur frá salnum á meðan á erindinu stóð og algjörlega magnaður hópur sem var ófeiminn við að spyrja og taka þátt.“
Að erindi loknu tóku nemendur MÁ til sinna ráða og völdu fjórar spurningar til að vinna með í vinnuhópum. Starfsfólk sammældist um það að þetta væri vinna nemenda, þeirra hugmyndir og gáfu þeim frelsi til að velja og vinna með spurningarnar án nokkurra fordóma eða inngrips. Starfsmenn voru ritarar og hópstjórar en að öðru leyti var umræðan algjörlega nemenda. Spurningarnar voru eftirtaldar:
- Hvernig eiga nemendur í MÁ að haga sér í samskiptum á netinu?
- Hvað er neteinelti og hvernig áttu að bregðast við því?
- Hvernig ætlum við sem skóli að bregðast við óviðeigandi hegðun á netinu?
- Hver er þín tillaga að texta í sáttmála MÁ um betri samskipti á netinu?
Að sögn eins nemanda sem tók þátt í vinnuhóp var mikil ánægja með þingið af hálfu nemenda skólans: „Við gátum sagt svo margt sem skiptir okkur máli og það var gott að fá skólann til að hlusta á það sem við höfum að segja”.
Geir Finnsson, kennari og félagsmálafulltrúi skólans var fundarstjóri á þinginu og kvaðst afar ánægður með daginn: „Fréttir undanfarin misseri af alvarlegum afleiðingum neteineltis hafa vegið þungt á okkur öllum og því var frábært að geta átt þetta opinskáa samtal við nemendur. Það skiptir máli að veita nemendum tækifæri og traust til að láta rödd sína heyrast um mikilvæg mál sem þessi því það hefur marktæk áhrif. Ég hvet aðra skóla til að gera slíkt hið sama”.