Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Í fremstu röð í samræmdu prófi í ensku
Laugardagur 25. nóvember 2006 kl. 18:51

Í fremstu röð í samræmdu prófi í ensku

Löngum hefur því verið haldið fram að fólk á Suðurnesjum tali almennt betri ensku en gengur og gerist annarsstaðar á landinu og er þá bent á nálægðina við bandaríska herinn til útskýringar.  Hvað sem sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar líður er þó eitt víst að krakkarnir í Heiðarskóla í Reykjanesbæ eru í fremstu röð á landsvísu þegar kemur að enskukunnáttu.

 

Í samræmda prófinu í ensku síðasta vor var Heiðarskóli í 8. sæti af öllum grunnskólum landsins þegar miðað var við normaldreifða einkunn, sem er almennt talinn marktækasti kvarðinn til að bera skóla saman. Meðaleinkunn Heiðarskóla var 7,4. Auk þess kom skólinn ákaflega vel út í öðrum greinum, en að sögn Sóleyjar Höllu Þórhallsdóttur, aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla, hafa nemendur skólans staðið sig vel síðustu ár og eru stöðugt að sækja í sig veðrið. 

 

 Ragnheiður Ragnarsdóttir er fagstjóri í ensku og kennir jafnframt ensku í 8., 9. og 10. bekkjum skólans og hún telur að þennan góða árangur megi m.a. þakka góðum tengslum við foreldra. „Krakkarnir eru mjög duglegir og metnaðarfullir, en foreldrarnir styðja líka vel við bakið á þeim. Annað sem kemur til er það að sami kennari sé með krökkunum alla elstu bekkina svo þar er ákveðin samfella. Einnig er mikilvægt að námsefnið sé fjölbreytt og reynt sé að koma til móts við áhugasvið þeirra. Það er ótal margt úr umhverfinu sem við getum nýtt, eins og til dæmis tónlist með enskum textum.”

 

Forsvarsmenn skólans hyggjast nota þennan meðbyr og eru með áætlanir um að vinna með tungumálakennslu í yngri bekkjum þar sem formleg kennsla er ekki hafin. Í heimsókn blaðamanns í kennslustund í 10. bekk sögðu nemendur að þeim þætti gaman í enskutímum og bættu því við að þau ætluðu sér að gera enn betur næsta vor en samnemendur þeirra gerðu síðast.

 

VF-mynd/Þorgils - Úr enskutíma í Heiðarskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024