Hyllir undir verslunarmistöð á Fitjum
Undirbúningur að nýrri verslunarmiðstöð, Kaupbæti, á Fitjum er kominn langt á veg og hafa Keflavíkurverktakar sett markið á að vera tilbúnir með húsið, sem verður um 3900m2, á sama tíma og ný gatnamót við tvöfalda Reykjanesbraut verða tekin í notkun á sama stað. Í byggingunni, sem verður á milli Kaffitárs og Go-kart brautarinnar, er gert ráð fyrir margs konar rekstri, þ.á.m. stórverslun og skyndibitastað. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 400 til 500 milljónir króna. Þeir aðilar sem hafa áhuga á að koma inn í húsið með rekstur setja það skilyrði að gatnamótin verði komin áður en að opnað verður, en Kári Arngrímsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurverktaka segist bjartsýnn á að svæðið byggist upp á næstunni. „Þenslan á höfuðborgarsvæðinu er farin að skila sér hingað suður eftir og það má segja að þessi staður verði eins konar hlið inn í Reykjanesbæ.” Upphaf framkvæmda veltur á því hvenær deiliskipulag á svæðinu verður fullbúið og hvenær verklok verða við tvöföldun Reykjanesbrautar.