Hvort er heilsa bæjarbúa eða fjármál bæjarins mikilvægari?
-Hitar umræður á íbúafundi um kísilver í Stapa
„Við hættum ekki fyrr en við jörðum þessa verksmiðju,“ sagði Einar Már Atlason, formaður Samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík á fjölmennum fundi í Stapa í gærkvöldi. Samtökin ætla að hefja fjársöfnun á Karolinafund til að standa undir kostnaði við fyrirhugaða hópmálsókn gegn United Silicon í Helguvík. Kísilverksmiðju og mengun frá henni var harðlega mótmælt. Fjöldi fundargesta mættu með spurningar sem fulltrúar Reykjanesbæjar og Umhverfisstofnunar svöruðu eða reyndu að svara í pallborði í Stapanum.
Á fundinum voru þekktir aðilar ræðumenn sem voru með erindi. Andri Snær Magnason, rithöfundur sagði stöðuna í Helguvík vera mesta „fíaskó á iðnaðarsvæði“ í Vestur Evrópu. Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir flutti fróðlegt erindi og vísaði í rannsókn frá áhrifum kísilvera í Noregi. Hann sagði m.a. að kísilver væru allt annað en góð fyrir heilsu bæjarbúa.
Heitar umræður urðu á fundinum þegar fundarmenn fengu að bera fram spurningar til þeirra sem sátu við pallborð. Mörgum þeirra var beint til starfsmanna Umhverfisstofnunar en einnig líka til bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar. Eygló Anna Tómasdóttir, fjögurra drengja móðir úr Keflavík sagðist hafa búið í bæjarfélaginu alla tíð en væri núna búin að fá sig full sadda af ástandinu. Hún væri astmaveik og hún fyndi mikið fyrir menguninni. Hún væri t.d. að greiða mun meira í lyf af þeim sökum. „Ég veit ekki hvert ég á að beina þessum áhyggjum mínum en mér gæti ekki verið meira sama um milljarða og milljónir. Ég á fjóra drengi og þeir eru gimsteinarnir mínir.“ Faðir Eyglóar, Tómas Knútsson, spurði Friðjón Einarsson, en hann er formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, hvort heilsa bæjarbúa eða fjármál bæjarins væri mikilvægara. Friðjón var ekki beint ánægður með spurningu Tómasar og svaraði að bragði: „Tómas! Hvað heldur þú?“ og bætti því við að þó svo að bærinn yrði af tekjum myndi hann lifa það af. Nokkrar umræður spunnust í kringum fjármálin en tekjur starfsemi United Silicon í Helguvík spila nokkra rullu í Sókninni, endurreisn fjármála Reykjanesbæjar. Kristinn Þór Jakobsson og Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúar ræddu það í þessum umræðum og sögðu það vissulega áhyggjuefni en yrði að finna lausn á með einhverjum hætti.
Eins og sjá má var fjölmennt í Stapa og eins á pallborðinu.