Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 26. nóvember 2001 kl. 22:46

Hvítt duft reyndist bindiefni

Þota flugleiða á leið frá Kaupmannahöfn til New York var kyrrsett í Keflavík þegar hvítt duft fannst í fraktrými hennar síðdegis í dag. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli segir tilkynningu um duftið hafa borist klukkan að verða hálf fimm, en verið var að afferma vélina.Vélin var ekki flutt til á vellinum heldur var hún girt af og slökkvilið Keflavíkurflugvallar kallað til. Viðbúnaðarástandi var svo aflétt klukkan tuttugu mínútur í átta í kvöld þegar í ljós kom að efnið var bindiefni, eða nokkurs konar matarlím, ætlað Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Óskar Herbert Þórmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir að eiturefnadeild Bandaríkjahers hafi framkvæmt litapróf sem hafi útilokað að um miltisbrandsgró væri að ræða og lögreglumenn síðan fundið lekann kassa ætlaðan Ölgerðinni. Þrír flugvallarstarfsmenn sem unnu við að losa vélina voru fluttir á lyflæknisdeild Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík, en lyfjagjöf og frekari prófanir á efninu voru afturkölluð þegar uppruni þess kom í ljós.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, sagði að lokið hafi verið við að afferma farangur farþega þegar duftið uppgötvaðist í fraktrýminu. ,,Það átti hvort eð var að vera vél frá okkur hér í nótt, þannig að við gátum skipt um vél," sagði hann og bætti við að farþegar hafi ekki orðið fyrir óþægindum að öðru leyti en því að farþegarnir sem ætluðu áfram til New York hafi tafist í um tvo tíma meðan skipt var um vél.
Frétt af Vísi.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024