Hvíldar- og endurhæfingarrýmum á HSS lokað vegna verkfalls sjúkraliða
- Verkfallsaðgerðir út þessa viku
„Veikustu sjúklingarnir eru í forgangi. Við leitumst við að sinna bráðatilfellum og höfum meðal annars lokað hvíldar-og endurhæfingarýmum vegna þessa,“ segir Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Sjúkraliðar sem starfa hjá ríkinu eru nú í verkfalli og hafa verkfallslotur staðið yfir síðan 15. október síðastliðinn.
Sértækar verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar í dag, mánudag, á morgun og á miðvikudag frá klukkan 8:00 til 16:00 á HSS, Landspítala og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Á miðnætti á fimmtudag hefst svo tveggja sólarhringa verkfallslota. „Við höfum þurft að draga saman með því að fækka rúmum á legudeildinni. Við höfum 31 rúm þar og undir venjulegum kringumstæðum hefur nýtingin verið um 100 prósent. Miðað við mönnun í verkfalli getum við aðeins sinnt um 12 sjúklingum. Þar sem þörfin er mun brýnni höfum við sótt um undanþágur til að geta mætt henni. Fjöldi sjúklinga hefur því verið um 15 til 16 manns,“ segir Þórunn.
Hjá HSS er heimahjúkrun aðeins sinnt að hluta og að sögn Þórunnar hafa ættingar þurft að grípa inn í. Verkefnin eru farin að safnast upp hjá stofnuninni vegna verkfallsins. „Má þar nefna biðlista í hvíldar-og endurhæfingu á D-deild. Verkefni sem sjúkraliðar sinna á heilsugæslu hafa hlaðist upp, sem og verkefni í heimahjúkrun, eins og til dæmis böðun sjúklinga.“
Þórunn segir það hafa gengið vel að fá undanþágur frá undanþágunefnd til að fá fleiri sjúkraliða til starfa við aukið álag.
Á vef RÚV ef haft eftir Kristínu Á. Guðmundsdóttur, formanni Sjúkraliðafélags Íslands að það miði áfram í viðræðum. Í gær stóð samningafundur frá klukkan 13:00 og fram undir miðnætti.