Hvetur til samstöðu starfsmanna í Straumsvík og allrar verkalýðshreyfingarinnar.
Ályktun stjórnar Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis um kjaradeiluna í Straumsvík.
Kjaradeila stéttarfélaganna í álverinu í Straumsvík við Rio Tinto Alcan hefur staðið á fjórtánda mánuð. Rio Tinto Alcan hefur komið fram af ótrúlegu virðingarleysi og hroka við starfsmenn í álverinu, vinnumarkaðinn hér á landi og íslensk stjórnvöld.
Framkoma Rio Tinto Alcan við viðsemjendur sína snýst ekki bara um kaup og kjör í álverinu heldur er hún aðför að íslenskum vinnumarkaði í heild sinni. Verkalýðshreyfingin á Íslandi verður að bregðast við með samrofa samstöðu með starfsmönnum álversins til að brjóta á bak aftur fyrirætlan fyrirtækisins.
Stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis skorar á Rio Tinto Alcan að ganga nú þegar í stað til samninga við launafólk í álverinu og skapa sátt á íslenskum vinnumarkaði. Að öðrum kosti verða verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin ásamt stjórnvöldum að koma að deilunni þar sem þessir aðilar lögðu línurnar þegar verksmiðjurekstur hófst í Straumsvík.