Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvetja fjárfesta til að hætta fjárfestingu í Helguvík
Sunnudagur 30. júlí 2017 kl. 01:41

Hvetja fjárfesta til að hætta fjárfestingu í Helguvík

Andstæðingar stóriðju í Helguvík hafa sent lífeyrissjóðum bréf með ósk um það sjóðirnir endurskoði afstöðu sína til frekari fjárveitinga vegna uppbyggingar á stórmengandi kísilverum í Reykjanesbæ. Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Arion banki fengu bréfið, sem dagsett er þann 29. júlí. 
 
Bréfið er svohljóðandi:
 
Samtök gegn stóriðju í Helguvík (ASH) biðla til hluthafa, fjármögnunaraðila og annarra hagsmunaaðila að þeir endurskoði afstöðu sína til frekari fjárveitinga vegna uppbyggingar á stórmengandi kísilverum í Reykjanesbæ. Stóriðjan er í túnfæti bæjarins og aðeins 1,4 kílómetra fjarlægð frá leikskólum og skólum. Frá því að rekstur United Silicon hófst í nóvember sl. hafa íbúar í Reykjanesbæ ekki farið varhluta af mengun frá kísilverinu. Reykur hefur almennt umlukið verksmiðjuna og í norðan áttum leggst eiturefnamengun (ýmist súr eða lyktarlaus) yfir bæinn. Í öðrum vindáttum berst mengunin til Garðs og Sandgerðis. Þegar svo ber við eru margir tilneyddir til að halda sig innandyra og loka gluggum á heimilum sínum. Vel yfir þúsund kvartanir hafa borist Umhverfisstofnun og að þeirra mati hefur eftirlitið með starfseminni verið fordæmalaust þar sem skráð hafa verið tugi frávika frá starfsleyfi. Ítrekað hefur komið upp eldur á vinnusvæðinu og í apríl sl. fyrirskipaði Umhverfisstofnun verkfræðilega úttekt á verksmiðju United Silicon. 
 
Í ljósi ofangreindra atriða spyrjum við ykkur, fjárfesta og hagsmunaaðila, hvort þið séuð reiðubúnir að fjárfesta í mengandi verksmiðju sem gefur af sér aukin útgjöld án hagnaðar? Þessari mengandi starfsemi er haldið úti í óþökk bæjarbúa sem nú þegar eru farnir að finna heilsufarsbreytingar til hins verra vegna reksturs eins ofns United Silicon. Með ykkar framlagi ýtið þið undir heilsufarslegt niðurbrot einstaklinga og þar með samfélagsins hér í Reykjanesbæ og nærliggjandi sveitarfélögum. Eruð þið í Festa lífeyrisjóði, Frjálsa lífeyrissjóðnum og Eftirlaunasjóði flugmanna tilbúin að leggja orðspor ykkar og peninga lífeyrisþega í þessa verksmiðju? Ætlar Arion banki að aðstoða eða auka hlut sinn í United Silicon eftir að gerðardómur dæmdi United Silicon til að greiða milljarð til ÍAV? 
 
Er ekki mál að linni og komið að þeim tímapunkti að átta sig á því að kísilmálmverksmiðjur eru ekki eins frábær fjárfestingakostur og þið hélduð í upphafi. Það mun aldrei ríkja sátt um kísilver í Helguvík hjá íbúum sem þurfa að þola heilsutjón og verulega skert lífsgæði vegna starfseminnar. 
 
Fyrirhönd íbúa, 
Andstæðingar stóriðju í Helguvík 
Margrét Þórólfsdóttir, stjórnarmaður í ASH.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024