Hvernig verður Reykjanes árið 2020?
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar kynnti í gær sviðsmyndaverkefni sem unnið hefur verið fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Verkefninu er ætlað að draga fram mögulegar sviðsmyndir af framtíð Reykjanes-svæðisins og nærsamfélagsins árið 2020. Sviðsmyndunum er ætlað að nýtast við frekari skipulagninu og stefnumótun fyrir svæðið. Má í því samhengi nefna liði eins og mögulegar klasamyndanir og hvernig atvinnustarfsemi verið boðin velkomin á svæðið. Lykilatriðið sé að opna augu allra sem að málinu koma fyrir því að framtíðin býr yfir margvíslegum tækifærum og umfram allt að þjóðfélagið sé að taka stöðugum breytingum.
Í þeirri miklu uppbyggingarvinnu sem er í gangi á svæðinu skiptir máli að allir hagsmunaaðilar geri sér grein fyrir því hvaða möguleikar eru á komandi árum og eins hvar helstu ógnirnar liggja.
Kjörin leið fyrir Keflavíkurflugvöll
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sagði í inngangi að kynningunni í gær að sviðsmyndaverkefnið hafi verið kjörin leið fyrir það svæði sem Þróunarfélagið er að meðhöndla á Keflavíkurflugvelli. Þróunin hafi verið mjög hröð í gömlu herstöðinni og verkefnið sé í raun mjög kvikt. Það sé margþætt og forsendur fljótar að breytast. Aðferðafræði sviðsmyndaverkefnisins bíður því upp á að skoða hlutina í því ljósi.
Sviðsmyndaverkefnið fór af stað fyrir nokkru síðan. Þróunarfélagið hafi kallað til fjöldan allan af aðilum til fundar þar sem hugmyndum var kastað fram er lúta að þessu verkefni og greiningu. Afraksturinn er rit sem tekið var saman um Reykjanes eins og það gæti mögulega litið út árið 2020 samkvæmt þeim sviðsmyndum sem unnið var með. Kjartan Þór segir að markmiðið sé að nýta ritið við stefnumótun Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar til framtíðar og setja fókus á þá þætti sem skipta mestu máli er varða framtíðaruppbyggingu þannig að hægt sé að gera sem mest úr þeim eignum sem eru á Keflavíkurflugvelli og eins að hámarka möguleika svæðisins til lengri tíma litið.
Kallað eftir skoðunum úr öllum áttum
Við framkvæmd vinnunnar var leitast við að fá fram skoðanir fjölbreytts hóps aðila en um 30 manns komu að vinnunni. Verkefnisstjórn var skipuð þeim Kjartani Eiríkssyni, Pálmari Guðmundssyni og Guðlaugi H. Sigurjónssyni. Framkvæmd og umsjón sviðsmyndavinnunnar var síðan í höndum Netspors ehf. og sáu þeir Eiríkur Ingólfsson, Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson um þann hluta.
Á fundinum í gær kom fram að við skilgreiningu verkefnisins var lagt upp með að velta upp framtíðarþróun svæðisins og nærsamfélagsins, til ársins 2020 frá sem fjölbreyttustu sjónarhornum. Markmiðið var að gera mismunandi lýsingar af hugsanlegri þróun sem sem hægt væri að hafa til hliðsjónar við framtíðarskipulag og þróun svæðisins. Í vinnuferlinu var sérstaklega lögð áhersla á greiningu drifkrafta og flokkun þeirra eftir óvissu og mikilvægi. Verkferlið fólst í vinnufundum, vefkönnunum og viðtölum sem tekin voru við ýmsa aðila sem tengjast svæðinu með einum eða öðrum hætti.
Hvað eru sviðsmyndir?
Sviðsmyndirnar sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar kynnti í gær eru ekki stefna, spá, áætlun eða framreikningur. Þá eru þær heldur ekki framtíðarsýn, þó þær megi nota til að móta slíka sýn. Sviðsmyndaaðferðin byggist á því að finna mikilvægustu óvissuþættina í starfs- og rekstrarumhverfi skipulagseiningar og skoða hvernig framtíðin gæti litið út, ef nokkrir þessara þátta þróast samtímis mjög langt í mismunandi áttir. Með því að búa til hugsanlega atburðarás í sviðsmyndum er sýnt hvernig þróun í hverri mynd getur gerst og þannig varpað ljósi á það hvaða ákvarðanir þarf að taka í náinni framtíð og hvaða afleiðingar þær geta haft.
Meðal mikilvægra spurninga sem leitast er við að svara í sviðsmyndunum eru hverjar séu þarfir og staða flugvallarins, afstaða ríkisvaldsins, samstarf sveitarfélaga á svæðinu, íbúaþróun og samfélag, menntun, rannsóknir og nýsköpun, sérhæfing Suðurnesja, umhverfismál og ýmislegt annað.
Sviðsmyndunum var vel tekið á kynningarfundinum í gær, sem m.a. var sóttur af bæjarstjórum Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs, öðru sveitarstjórnarfólki og fulltrúum fyrirtækja og stofnana sem þegar hafa hreiðrað um sig í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar á kynningunni í gær.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson