Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvernig er best að undirbúa sig ef það fer að gjósa við Svartsengi?
Mánudagur 6. nóvember 2023 kl. 11:45

Hvernig er best að undirbúa sig ef það fer að gjósa við Svartsengi?

Björgunarsveitinni Suðurnes hafa borist fyrirspurnir undanfarið hvernig sé best að undirbúa sig heima fyrir ef það fer að gjósa við Svartsengi. Við höfum alltaf reynt eftir okkar bestu getu að svara þessum spurningum eftirfarandi:

Vertu með ca. 10 lítra af vatni á flöskum og brúsum. Þeir sem eru með gæludýr gætu þurft að hafa meira.

Gerðu ráðstafanir með að fá gistingu utan svæðis sé það nokkur kostur. Foreldrar með smábörn hafast ekki við í óupphituðu húsnæði ef heita vatnið fer af.

Alls ekki kaupa rafmagnsofna í hvert herbergi ef allt fer á versta veg, þá verður ekki nægt rafmagn til að keyra alla þessa ofna. Ákveðið hvaða herbergi þið ætlið hita og veljið lítinn rafmagnsofn í það rými.

Ekki hamstra eldsneyti, það er hættulegt að geyma það í miklu mæli í heimahúsum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nauðsynlegt er að eiga vasaljós og aukarafhlöður og kerti en þá verður kveikjarinn að vera á sýnum stað.

Við ráðleggjum líka öllum íbúum á Reykjanesi að kynna sér þær viðbragðsáætlanir sem eru til fyrir það svæði sem við búum á.

Björgunarsveitin telur ekki þörf á því að birgja sig upp af klósettpappír.

Gott er að eiga matvöru með langan fyrningartíma.

Skoðaðu stöðuna á gasinu á grillinu það er alltaf hægt að grilla. Grilluð samloka með osti og skinku smakkast einstaklega vel í náttúruhamförum).

Að lokum viljum við benda á að Rauði Krossinn á Íslandi notar hugtakið 3 dagar þar má finna allar nánari upplýsingar um hvað gott er að hafa til þriggja daga ef hætta er á náttúruhamförum eða veður hamförum.

Alltaf má hafa samband við Björgunarsveitina Suðurnes til að fá frekari upplýsingar en allar hjálparbeiðnir fara í gegnum neyðarlínuna í síma 1-1-2.

Höldum alltaf ró okkar hlustum á fyrirmæli frá opinberum aðilum.

Útskýrum fyrir smáfólkinu okkar hvað er að gerast og töpum alls ekki gleðinni.

Haraldur Haraldsson
Björgunarsveitin Suðurnes
Reykjanesbæ.