Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Hvernig datt ykkur þetta í hug?“
Frá íbúafundi í Stapa í gærkvöld. VF-mynd/pket
Fimmtudagur 15. desember 2016 kl. 14:50

„Hvernig datt ykkur þetta í hug?“

- Hiti í fundargestum á íbúafundi um mengun frá kísilveri United Silicon

Fjöldi íbúa Reykjanesbæjar mætti á íbúafund í Stapa í gærkvöld þar sem rædd var ófyrirséð mengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Verksmiðjan hóf framleiðslu í haust og upp úr miðjum nóvember fóru íbúar að finna fyrir lyktar- og reykmengun og hafa Umhverfisstofnun borist fjölmargar ábendingar vegna þess. Að loknum framsögum á fundinum frá fulltrúum Reykjanesbæjar, United Silicon, Umhverfisstofnun og Orkurannsóknum Keilis gafst fundargestum kostur á að bera fram spurningar. Ýmis mál tengd uppbyggingu stóriðju í Helguvík brunnu á fundargestum og stóð fundurinn í rúmlega þrjár klukkustundir en þá var mælendaskrá lokað.

Íbúi í næsta nágrenni við kísilverið lýsti því hvernig gasskynjari hafi farið gang þegar hann hafði útidyrahurð á heimili sínu opna um tíma. Hann hafði áhyggjur af því að önnur efni en þau sem verið er að mæla streymi frá verksmiðjunni. Annar íbúi sem býr í rúmlega 1200 metra fjarlægð frá verksmiðjunni kvaðst hafa keypt hús sitt á svæði sem skilgreint var sem íbúðabyggð á þeim tíma en að núna væri húsið á mengandi svæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hvernig datt ykkur þetta í hug? Í alvörinni?,“ spurði íbúi sem ólst upp við Heiðarholt í næsta nágrenni við kísilverið og býr þar enn. Hann benti á að leikskólinn Heiðarsel væri innan mengunarsvæðis. Hann lýsti því hvernig hann týndi ber og hundasúrur þar í móanum í æsku og spurði fulltrúa bæjaryfirvalda hvort til stæði að vara börn í hverfinu við að leggja sér slíkt til munns í framtíðinni. Annar sagðist upplifa stöðuna sem svo að hann væri staddur í skipulagslegu stórslysi þar sem hver vísi á annan.

Fólk lýsti yfir áhyggjum af því að Orkurannsóknir Keilis, sem sjá um mælingar á mengun frá kísilverinu, fái greitt fyrir rannsóknirnar frá United Silicon og það væri ekki ákjósanlegur grunnur til að byggja upp traust. Þá lýsti íbúi áhyggjum af því að ungt fólk myndi í framtíðinni flytja frá bæjarfélaginu vegna mengunar. „Við erum að ala upp kynslóð hér sem hefur staðið sig vel í Pisa-könnunum og við viljum hafa hana hér áfram, er það ekki?,“ sagði sá íbúi og uppskar lófaklapp fundargesta.