Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hverfahátíðin Ljósanótt: Ó, Keflavík
Þriðjudagur 28. ágúst 2007 kl. 11:28

Hverfahátíðin Ljósanótt: Ó, Keflavík

Síminn hefur verið rauðglóandi hjá bæjarfulltrúanum Ólafi Thordersen síðan Ljósalagið var flutt í Kastljósti Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Jóhann Helgason var fenginn til þess að semja Ljósalagið í ár og honum til aðstoðar við flutninginn í Kastljósinu var Rúnar Júlíusson. Lagið ber nafnið Ó, Keflavík og hefur það komið við kauninn á fjölmörgum sem byggja Reykjanesbæ en eru ekki Keflvíkingar.

 

Í textanum er viðkvæðið Ó, Keflavík, ó, Keflavík en í ár er Ljósanóttin haldin hátíðleg í Reykjanesbæ í áttunda sinn. Víkurfréttir náðu tali af Ólafi Thordersen bæjarfulltrúa A-listans í Reykjanesbæ en Ólafur er rótgróinn Njarðvíkingur og hefur aldrei farið í grafgötur með þá staðreynd.

 

,,Ég stóð í þeirri meiningu að þetta væri bæjarhátíð allra þeirra sem byggja Reykjanesbæ, ég hélt að Reykjanesbær hefði verið sameinaður úr þremur bæjarfélögum. Ég hef heyrt að það sé mikill hiti í fólki út af laginu og mér finnst þetta ekki viðeigandi því þetta er ekki einhver hverfahátíð,” sagði Ólafur í samtali við Víkurfréttir.

 

,,Ég hef tekið við mörgum tugum símtala þessa efnis síðan þetta var sýnt í Kastljósinu í gær og ég man ekki eftir öðrum eins viðbrögðum við einni frétt síðan ég byrjaði í bæjarmálunum. Fólk á ekki orð yfir þetta. Það hefði mátt vanda betur til í textanum svo allir bæjarbúar yrðu ánægðir. Ég hef verið í símanum meira og minna síðan í gærkvöldi og fólki er heitt í hamsi,” sagði Ólafur.

 

Víkurfréttir leituðu einnig viðbragða hjá fyrrum bæjarstjóra Njarðvíkur og núverandi formanni Ungmennafélags Njarðvíkur, Kristjáni Pálssyni. Hann hafði þetta um málið að segja:

,,Ég held að maður taki þetta nú ekki of hátíðlega,” sagði Kristján en hann hafði ekki heyrt Ljósalagið. ,,Keflvíkingar hafa alltaf átt góða nágranna og við höfum ekkert verið að amast yfir því þó þeir trani nafni sínu hvar sem er en við búum öll í Reykjanesbæ í sátt og samlyndi,” sagði Kristján.

 

Ekki fer á milli mála að listamaðurinn Jóhann Helgason er að gera upp við sitt gamla bæjarfélag, Keflavík. Í textanum segir… ,,þú varst mín æskuslóð og oftast við mig góð, mitt ljóð ég kveð til þín…

 

Njarðvíkingurinn (og Reyknesbæingurinn) Ólafur Thordersen kvaðst eiga fína lausn á þessu máli:  ,,Er þá ekki tilvalið að Magnús Þór Sigmundsson semji næsta Ljósanæturlag undir vinnuheitinu Burðugur ertu Bolafótur?”

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024