Hver munurinn á hávaða frá Yello og Glóðinni?
Nágrannar skemmtistaðarins Yello á Hafnargötu furða sig á því hvers vegna bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ synja Glóðinni um leyfi til skemmtistaðareksturs en Yello ekki. Glóðinni var synjað um leyfið nýlega þar sem íbúar í nágrenninu höfðu mikið kvartað yfir ónæði frá staðnum og slæmri umgengni. Nágrannar Yello segjast hafa kvartað ítrekað í rúm tvö ár af sömu ástæðum, fyrst við heilbrigðiseftirlitið og síðan við bæjaryfirvöld, án þess að nokkuð hafi gerst. Bráðabirgðaleyfi til skemmtistaðareksturs hafi ávallt verið endurnýjað til skamms tíma í senn.
Þann 19. mars síðastliðinn var lagður fyrir bæjarráð undirskriftalistalisti íbúa í nágrenni við staðinn þar sem þessu er mótmælt. Hátt í þrjátíu íbúar skrifuðu undir listann. Formlegt svar bæjaryfirvalda var á þá leið að málsmeðferðarreglur Reykjanesbæjar um veitinga- og gististaði væru í endurskoðun samkvæmt ákvörðun bæjarráðs. Erindið væri móttekið.
Hver er munurinn á hávaða frá á Glóðinni og hávaða frá Yello, spyrja nágrannarnir, sem vísa í 20. grein lögreglusamþykktar Reykjanesbæjar máli sínu til stuðnings en þar stendur m.a.:
„Atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum er óheimil. Bæjarstjórn getur þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi sem tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum…Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum þessarar greinar eða reksturinn þykir ekki fara vel úr hendi getur bæjarstjórn, með 3 mánaða fyrirvara, afturkallað leyfið.
Atvinnurekstri í húsnæði sem liggur að íbúðarbyggð skal jafnan hagað þannig að ekki hljótist af ónæði eða truflun fyrir þá, sem næst búa. Gildir það jafnt um starfsemina sjálfa, sem og umferð sem af henni hly´st. Bæjarstjórn getur sett sérstakar reglur um slíka starfsemi ef ástæða þykir“.
„Til hvers að setja lögreglusamþykkt ef það á svo ekki að fara eftir henni,“ spyr Sævar Þorkell Jensson, íbúi á Klapparstíg. Hann segist lítinn svefnfrið hafa um helgar. Sömu sögu megi segja um marga nágranna hans. Stundum standi hávaðinn fram undir morgun.
---
Þessi sjón mætir verslunareigendum á neðri hæðinni eftir helgarnar.