Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 14:54

HVER BER ÁBYRGÐINA Á REKSTRI KEILUSALARINS?

Tap á rekstri keilusalarins: Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ nýverið kröfðust nokkrir bæjarfulltrúar þess að rekstur keilusalarins yrði skoðaður. Svo virðist sem reksturinn sé kominn í óefni og nú hefur hann verið boðinn út. Ólafi Thordersen (J) var falið að fara yfir reikninga keilusalarins. Hann sagði að skuldirnar næmu um 2 milljónum króna og það væru m.a. húsaleiguskuldir, ógreiddar afborganir af lánum, yfirdráttur á ávísanreikningi o.fl. Jóhann Geirdal (J) krafðist þess að farið yrði í saumana á því hvers vegna útreikningar Stefáns Bjarkasonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa, og Ragnars Arnars Pétursson, varðandi rekstur salarins, hefðu ekki staðist. Ellert Eiríksson (D), bæjarstjóri, tók einnig til máls og vildi fá að vita hvert milljónin hefði farið sem bæjarfélagið lagði í reksturinn fyrir nokkrum mánuðum síðan. Á síðasta ári var Ragnar Örn útnefnur af íþróttabandalagi Reykjanesbæjar til að aðstoða við reksturinn. Svo virðist sem honum hafi ekki tekist að rétta hann af. Framkvæmdastjóraskipti hafa verið tíð og segja sumir að það sé m.a. ástæðan fyrir því að reksturinn hafi ekki gengið sem skyldi. Það hefði þurft einhvern einn ábyrgan aðila til að halda utan um allan pakkann. Vandamálið virðist ekki vera að keilusalurinn hafi ekki burði til að bera sig því Ævar Olsen, sem sá um salinn á tímabilinu febrúar-apríl á þessu ári, sýndi framá að slíkur rekstur gæti vel borið sig. Haft var samband við Ólaf Thordersen eftir fundinn og hann sagði: „ Þarna er ákveðinn uppsafnaður vandi á ferð sem aldrei var alveg leystur. Reksturinn gengur vel yfir háveturinn en svo dofnar yfir honum á sumrin. Það þarf að fá ábyrgan aðila til að hafa umsjón með rekstrinum. Íþróttabandalag Suðurnesja tók að sér reksturinn fyrir um tveimur árum og ég tel mjög brýnt að bæjarfélagið haldi þessum rekstri inni. Íþróttabandalagið er ábyrgt og er að leita leiða til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Nú er komið tölvuskor sem hefur víðast hvar aukið aðsókn um allt að 30%.” Stefán Bjarkason telur að þennan vanda megi að hluta til skýra með ákveðnum ójöfnuði og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir hann. „Íþróttafélögin fá styrk í formi þess að þau þurfa ekki að borga afnot af húsnæði í eigu bæjarins. Keiludeild Keflavíkur hefur þurft að borga leigugjald og æfingagjöld í öll þessi ár. Þannig að íþróttafélögin sitja ekki við sama borð. Þetta er aðalamálið. Keflavíkurverktakar hafa verið mjög jákvæðir og fellt niður leigugjöld í tvo mánuði á hverju ári, en það hefur ekki dugað til.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024