Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvenær fær fólk á Suðurnesjum vinnu?
Laugardagur 8. október 2011 kl. 09:58

Hvenær fær fólk á Suðurnesjum vinnu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sveitarfélagið Garður stendur fyrir opnum fundi með Kristjáni Möller formanni nýrrar atvinnumálanefndar Alþingis á veitingastaðnum Tveim vitum, Garðskaga nk. mánudagskvöld 10. október klukkan 18.00.

Oddný Harðardóttir þingmaður kjördæmisins verður einnig gestur fundarins.

„Okkur finnst klukkan ganga ansi hægt núna og okkur finnst að í mörgu höfum við vindinn í fangið. Þrátt fyrir fjárfestingarsamninga ríkisstjórnarinnar við Norðurál þá er þeim ekki fylgt eftir, jafnvel unnið á móti þeim af ráðherrum í ríkisstjórninni,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði í viðtali við mbl.is.

„Kristján Möller hefur lýst yfir miklum vilja til þess að koma þessum atvinnumálum af stað hérna suður frá og við bindum miklar vonir við hans málflutning. Hann er náttúrlega ráðandi maður í þinginu og Oddný Harðardóttir einnig þannig að núna erum við að fá fólkið sem virkilega getur haft áhrif á að aðstoða okkur við að hleypa frekara lífi í að þessi atvinnumál komist af stað. Það er ekki eingöngu að HS Orka og Norðurál semji um rafmagnið hér heldur þarf líka Landsvirkjun að koma að þessu og ríkisstjórnin þarf að sýna meiri vilja í því að fara í að virkja neðri hluta Þjórsár. Við erum að vona að þetta fólk komi með svörin við því, hvað ríkið geti gert til að ýta þessu verkefnum frekar áfram sem hafa verið í biðstöðu árum saman,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segir nánast ekkert hafa gerst í atvinnumálum á Suðurnesjum frá efnahagshruninu en atvinnuleysi á Suðurnesjum er það mesta á landsvísu hlutfallslega, um 11%, að sögn Ásmundar. Það sé 11% of mikið.