Hvatt til upplýstrar umræðu um álver í Helguvík
Bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ fallast á að áfram verði unnið að uppbyggingu álvers í Helguvík en telja brýnt að íbúar sveitarfélagsins verði upplýstir um stöðu mála eins og kostur er. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Guðbrandur Einarsson lagði fram fyrir hönd A-lista á bæjarstjórnarfundi í gær.
A-listinn vill að fram fari fræðsla og kynningar á afmörkuðum þáttum er snerta álver, s.s. álveri sem vinnustað, áhrifum á nánasta umhverfi, orkuöflun vegna álvers og öðrum atriðum sem tengjast álveri og varða Suðurnesin í heild Þá verði reynt að finna leiðir fyrir íbúa á Suðurnesjum til að koma skoðun sinni á framfæri eftir að umhverfismat liggur fyrir og það kynnt rækilega fyrir íbúum svæðisins, eins og segir í yfirlýsingunni.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir, sem koma út á morgun, að staða undirbúnings vegna málsins hafi verið kynnt á 10 íbúafundum síðstu tvö ár Samt sé kynningarferlið varla byrjað en hið lögformlega kynningarferli fari nú af stað. Í máli hans kemur fram að hlustað verði á allar vandaðar athugasemdir íbúa og annarra sem um málið vilja fjalla. Eftir sem áður telur Árni íbúakosningu um málið ekki koma til greina þar sem engir slíkir fyrirvarar séu í samningunum við Norðurál. „Það er einfalt að segja að sjálfsagt sé að leyfa íbúum að kjósa um þetta, en við sem berum ábyrgð á samningum, stöndum við samninga,“ segir Árni.