Hvatningarátakið „Hættum að reykja“
Reykjanesbær, fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu hafa samþykkt að styrkja hvatningarátakið „Hættum að reykja“ með fjárframlagi, en hvatningarátakið er samstarfsverkefni ofangreindra aðila og Jóhanns G. Jóhannssonar tónlistarmanns. Menningar-,íþrótta- og tómstundadeild Reykjanesbæjar fær 1200 eintók af geislaplötunni, „Hættum að reykja“ sem gefin er út sérstaklega í tilefni hvatningarátaksins. Upplaginu verður dreift sem gjöf frá ofangreindum aðilum til nemendafélaga í grunnskólum bæjarins, en hver skóli fær um 300 eintök af plötunni. Nemendafélögin geta nýtt gjöfina til endursölu til að fjármagna tiltekin verkefni sem ákveðið er að vinna að t.d. kaup á tækjum, skólaferðalags o.þ.h. Menningar-, íþrótta og tómstundadeild mun annast kynningu og dreifingu á geislaplötunni. Árni Sigfússon bæjarstjóri og Jóhann G. Jóhannsson tónlistarmaður undirrituðu samkomulag um samstarfið í Heiðarskóla í dag og sagði Jóhann G. við það tilefni að upphafið að þessu verkefni hafi verið þegar hann gekk á fund Árna Sigfússonar bæjarstjóra: „Ég samdi lag sem hét Tóm tjara sem Rut Reginalds söng og frá því að það lag kom út hefur mig langað að gera eitthvað svipað. Reykingar eiga að heyra liðinni tíð og ég vil taka þátt í því að berjast gegn reykingum, sérstaklega að sporna við því að ungt fólk byrji að reykja og að fleiri sveitarfélög fari að fordæmi Reykjanesbæjar,“ sagði Jóhann G. Jóhannsson við þetta tilefni.
Auk Reykjanesbæjar styrkja eftirtalin fyrirtæki hvatningarátakið:
Sparisjóðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, Aðalstöðin, Apótek Keflavíkur, Plastgerð Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Sjóvá-almennar, Tryggingamiðstöðin, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Matarlyst-Atlanta og Verkfræðistofa Njarðvíkur.
Auk Reykjanesbæjar styrkja eftirtalin fyrirtæki hvatningarátakið:
Sparisjóðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, Aðalstöðin, Apótek Keflavíkur, Plastgerð Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Sjóvá-almennar, Tryggingamiðstöðin, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Matarlyst-Atlanta og Verkfræðistofa Njarðvíkur.