Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvatinn fyrir háskólanám var ekki mikill
Nú er boðið upp á fjölbreytt háskólanám í Keili á Ásbrú.
Laugardagur 22. júní 2013 kl. 08:00

Hvatinn fyrir háskólanám var ekki mikill

- segir Júlíus Jón Jónsson, forstjóri HS Orku.

„Það eru margir búnir að horfa til þess að hér verði byggt álver. Síðan hefur auðvitað verið mikil uppbygging í kringum flugvöllinn sem kemur til vegna fjölgunar ferðamanna. Menn eru með plön um að stækka flugstöðina, jafnvel að byggja nýja komustöð það er því mikið af tækifærum í kringum ferðaþjónustuna," segir Júlíus Jón Jónsson, forstjóri HS Orku í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni.

Júlíus, sem er fæddur og uppalinn í Sandgerði en býr nú í Keflavík, var spurður í viðtalinu hvernig hann sjái fyrir sér atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum næstu árin?

„Í umræðunni síðustu árin hafa komið upp nokkrar hugmyndir sem allar hafa verið slegnar út af borðinu af þáverandi stjórnvöldum, s.s. þjónusta við herflugvélar, sjúkrahús fyrir útlendinga og fleira. Síðan er það kísilverið og það væri gaman að fá slíka stórnotendur. Það að fá stóra aðila hingað, hvort sem það er álver, kísilver eða eitthvað annað, breytir ekki öllu eitt og sér. En það breytir viðhorfinu og um leið fara aðrir hlutir af stað. þegar álverið í Straumsvík var stækkað um miðjan tíunda áratuginn þá fóru alls kona hlutir af stað sem höfðu í raun og veru ekkert með álverið að gera. Menn bara trúðu því að efnahagslífið væri að taka við sér og fóru af stað með hugmyndir sem þeir voru lengi búnir að vera með í hausnum en ekki þorað að fara út í .“

Júlíus segir að samfélagið á Suðurnesjum hafi orðið fyrir vissu áfalli þegar Bandaríkjaher fór frá landinu árið 2006. Herinn hafi veitt þeim mörgum vel launaða vinnu en auk þess hafi verið mikil umsvif í sjávarútvegi á árum áður og hvatinn til að fara í háskólanám því ekki mikill.

„Ég var um tíma sá eini úr mínum árgangi sem hafði lokið háskólanámi," segir Júlíus og glottir við.

„Ég man þegar ég var að koma úr námi og átti ekki neitt þá voru flestir samnemendur mínir fluttir í eigin húsnæði. Það var því miður viðhorfið; að það væri bara leti að fara í skóla. En það hefur breyst mikið og Árni (Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ) hefur lagt mikið upp úr því að byggja hér upp öflugt skólastarf. Menn voru við það að rétta úr kútnum þegar hrunið kom haustið 2008. Það var búið að byggja mikið og það var búin að eiga sér stað mikil fólksfjölgun og uppbygging á svæðinu. Ég hef fulla trú á því að menn haldi þeirri vinnu áfram og þó svo að það taki tíma þá er hér mikið um tækifæri sem hægt er að nýta til frekari uppbyggingar,“ segir Júlíus m.a. í viðtalinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024