Hvar eru þingmennirnir? - Framlög ríkis til Suðurnesja lægri en til annarra landshluta
Aðeins einn af þingmönnum Suðurkjördæmis er mættur á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem nú stendur yfir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd sagði það kannski í stíl við framlög ríkisins til allra málefna á Suðurnesjum sem eru mun lægri en til annarra landshluta.
Í ræðu Róberts á aðalfundi SSS um málefni fatlaðra á Suðurnesjum kom fram að framlag ríkisins þar er 24% lægra en landsmeðaltal. Róbert sagðist enga skýringu hafa á því né af hverju þetta væri í öllum málaflokkum, hvort sem það væri heilbrigðisþjónusta eða menning.
„Ég sótti marga fundi um allt land þegar ég starfaði hjá félagsmálaráðuneytinu og undantekningalaust voru þingmenn hvers svæðis mættir. Mér finnst það sérstakt að vera hér á aðalfundi sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og það er aðeins einn þingmaður mættur,“ sagði Róbert.
Þess má geta að eini mætti þingmaðurinn er Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðismanna. Rétt fyrir hádegi barst kveðja frá Atla Gíslasyni, þingmanni.
Mynd frá aðalfundinum. Lengst til hægri er Ragnheiður Elín, eini þingmaðurinn sem er mættur á fundinn.