Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvalur gerir usla í æðarvarpi
Miðvikudagur 20. maí 2009 kl. 18:04

Hvalur gerir usla í æðarvarpi


Hvalur hefur í dag gert usla í æðarvarpi við Norðurkot í Sandgerði. Hvalurinn sjálfur hefur enn sem komið er ekki verið að trufla æðarfuglinn, en eftir að fréttist að dýrinu í fjörunni hefur verið talsverð umferð við varpið með tilheyrandi ónæði.

Hvalurinn í fjörunni er sagður vera hnúfubakur og segir vefurinn 245.is í Sandgerði að dýrið sé lifandi. Það þvertekur heimilisfólkið í Norðurkoti fyrir og segir að hvalurinn sé steindauður. Hann verður fjarlægður úr fjörunni, enda hætta á því að lýsismengun frá dýrinu geti skaðað friðað fuglalífið við Norðurkot.

Að Norðurkoti er friðlýst æðarvarp og þar sem nú er varptími getur almenningur ekki farið í fjöruna þar sem hvalrekinn er. Það eru vinsamleg tilmæli þeirra sem sjá um varpið að fólk sé alls ekki að fara um svæðið og alls ekki í fjöruna þar sem hvalurinn er, enda lífríkið viðkvæmt.

Þeir sem vilja sjá dauðan hval ættu því að láta sér nægja að skoða meðfylgjandi myndir. Þeir sem verða að berja dýrið með eigin augum geta séð hvalinn frá þjóðveginum sem liggur frá Sandgerði og út á Hvalsnes.



Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Bárður Sindri Hilmarsson




Æðarvarp er mikið við Norðurkot. Bliki á vappi í forgrunninum kippir sér ekki upp við það að hvalur sé strandaður utan við varplandið.



Hræ dýrsins er strandað á grynningum töluvert langt úti í fjörunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024