Hvalrekar á Reykjanesi
Eftir að fréttir af háhyrningshræi í Ósabotnum tóku að berast í fyrradag ákvað Aron Arnbjörnsson, ábúandi á Nýlendu, að gera sér ferð í gær til að skoða hvalrekann. Hann hélt suður með ströndinni í átt að Ósabotnum en áður en hann komst alla leið þangað sem háhyrninginn var að finna gekk hann fram á annan hvalreka, sennilega um þrettán metra langan búrhval sem virðist hafa legið ansi lengi.
Aron lét Hafrannsóknarstofnun vita af fundinum og tók meðfylgjandi myndir af hvalhræinu.
Háhyrningurinn sem fannst við Ósabotna í fyrradag var um sex metra langt kvendýr, sem hefur verið dautt í nokkra daga. „Það var engin sjáanleg dánarorsök en dýrið var búið að veltast eitthvað um í fjörunni og líklega rekið á land fyrir nokkrum dögum. En það var frekar ferskt,“ var haft eftir Sölva R. Vignissyni, líffræðingi hjá þekkingarsetri Suðurnesja, á visir.is.
Það var Guðmundur Hjörtur Falk sem tók myndirnar af háhyrningshræinu.